Hoppa yfir valmynd
3. maí 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Landupplýsingar samræmdar og aðgengi aukið

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherr á Alþingi 2009
Á Alþingi

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um grunngerð landupplýsinga á Alþingi síðastliðinn föstudag. Markmið frumvarpsins er að samræma framsetningu landupplýsinga frá hinum ýmsu aðilum, t.d. sveitarfélögum og ríki og viðhalda upplýsingunum í þeim tilgangi að tryggja aðgengi almennings og yfirvalda að þeim. Með því verður meðal annars tryggt að sömu gagnanna verði ekki aflað margsinnis á vegum hins opinbera. 

Frumvarpið er byggt á tilskipun Evrópusambandsins um notkun og miðlun landupplýsinga sem hefur verið nefnd INSPIRE. Landupplýsingarnar eru taldar mikilvægar fyrir góða stjórnsýslu og til að upplýsa og virkja almenning. Markmið tilskipunarinnar er fyrst og fremst að samræma og samnýta opinberar landupplýsingar og þá einna helst í þágu umhverfismála. Þannig verður hægt að skiptast á landupplýsingum, innanlands sem utan. Þá eru settar reglur með tilskipuninni um hvernig skipulag, upplýsingamiðlun og aðgengi að landupplýsingum skuli vera háttað.

Ávinningur Íslands af innleiðingu tilskipunarinnar er talinn vera bæði samfélags- og fjárhagslegur og mun meðal annars nýtast við skipulagsgerð, vegna viðbragða við náttúruhamförum, vegna náttúruverndar og ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Ávinningurinn mun fyrst og fremst koma fram í hagræðingu, aukinni samvinnu og samnýtingu sem fylgir því að gögn verða gerð aðgengilegri. Talið er að fjárhagslegur ávinningur af innleiðingu tilskipunarinnar sé um það bil fimm sinnum meiri en kostnaður við innleiðingu og er þar miðað við reynslu annarra ríkja.

Samkvæmt frumvarpinu verður Landmælingum falið að stofna og reka svonefnda landupplýsingagátt. Gáttin verður öllum opin og hún á að veita aðgengi að þessum landupplýsingum. Samkvæmt frumvarpinu ber stjórnvöldum sem hafa landupplýsingar í umsjá sinni að gera þær aðgengilegar á landupplýsingagáttinni. Þá er gert ráð fyrir að aðrir en stjórnvöld geti tengt landupplýsingar sínar við gáttina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum