Hoppa yfir valmynd
25. mars 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sjónarmið fræðimanna mikilvæg í umræðunni

Ársfundur NÍ 2010
Ársfundur NÍ 2010

,,Í allt of langan tíma hefur náttúran verið vikið til hliðar fyrir framkvæmdum sem hafa verið ákvarðaðar á grundvelli skammtímasjónarmiða, gróðahyggju og sérhagsmuna." Þetta var meðal þess sem fram kom í ávarpi Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar. Þá sagði ráðherra: ,,Það hefur ekki farið framhjá neinum þau heiftarlegu viðbrögð sem urðu við úrskurði mínum um að heimvísa máli um Suðvesturlínu aftur til Skipulagsstofunar, af því að ég staldraði við, spurði spurninga og fór fram á að aflað væri frekari upplýsinga sem hægt væri að byggja upplýsta ákvörðun á. Ég hef verið ásökuð um hryðjuverk, að vera á móti hagvexti, að atvinnuleysi fólks á Suðurnesjum sé í boði umhverfisráðherra. Orðin hafa verið stór og óvægin en ég tel að með því að hafa staldrað við og spurt frekari spurninga - spurninga sem maður á að spyrja ætli maður að starfa í anda sjálfbærrar þróunar, hafi orðið til þess að umræðan um þessa tilteknu framkvæmd varð upplýstari og höfðu sjónarmið fræðimanna Náttúrufræðisstofnunar miklvægt vægi í umræðunni."

Umhverfisráðherra sagði að lagaumhverfið og stjórnsýslan hefðu ekki verið í þágu náttúrverndar og því þyrfti að breyta. ,,Það má til að mynda spyrja sig hver sé tilgangur laga um mat á umhverfisáhrifum eftir að þeim var breytt eftir úrskurð Skipulagsstofnunar sem lagðist gegn framkvæmdinni við Kárahnjúka. Hver er tilgangurinn með því að setja fyrirhugaðar framkvæmdir í umhverfismat ef búið er að ákveða að farið verið í tiltekna framkvæmd? Ákvörðun sem er tekin áður en það liggur fyrir hver áhrifin verða á náttúruna og samfélagið. Mat á umhverfisáhrifum hefur í það minnsta aldrei orðið til þess að hætt hafi verið við stórframkvæmd."  

Hér má lesa ræðu umhverfisráðherra í heild sinni.

Frétt um ársfund Náttúrufræðistofnunar á heimasíðu stofnunarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum