Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Landgræðsluskólinn orðinn aðili að Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Sjálfbær nýting lands
Landnýting í Úganda

Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna, sem rekinn er af Landgræðsu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands, er nú orðinn formlegur aðili að Háskóla Sameinuðu þjóðanna og heitir héðan í frá Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-LRT). Fyrir eru starfandi hér á landi tveir slíkir skólar, Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Landgræðsluskólinn hefur verið rekinn í þrjú ár og hefur á þeim verið unnið að því að undirbúa samstarf við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Sautján nemendur frá átta þróunarríkjum hafa þegar útskrifast frá Landgræðsluskólanum. Nú er von á sex nemendum sem taka þátt í hálfs árs þjálfun sem hefst í apríl.

Í ræðu á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember beindi Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra athyglinni að þessu verkefni. Hún sagði skólann vera mikilvægt framlag íslenskra stjórnvalda til að byggja upp þekkingu í þróunarríkjum til að takast á við vandamál tengd loftslagsbreytingum. Með því að smella hér er hægt að nálgast ræðu umhverfisráðherra í heild sinni.

Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri og stjórnarformaður Landgræðsluskólans og Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands undirrituðu samning við Háskóla Sameinuðu þjóðanna þann 17. febrúar. Áður höfðu Konrad Osterwalder, rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, undirritað samninginn.

Í stjórn verkefnisins sitja fulltrúar Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og utranríkisráðuneytisins.

Sjá frétt á heimasíðu Landgræðslunnar.

Heimasíða Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum