Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stjórnsýsluleið í Árósasamningnum

Starfshópur sem umhverfisráðherra skipaði til að undirbúa fullgildingu Árósasamningsins hefur skilað skýrslu sinni. Hlutverk starfshópsins var að gera tillögu um hvernig standa eigi að innleiðingu samningsins í íslenskan rétt, en í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að þeirri innleiðingu skuli hraðað. Áður en hafin er vinna við gerð lagafrumvarps til fullgildingar á Árósasamningnum var ákveðið að starfhópurinn legði mat á það með hvaða hætti best sé að innleiða samninginn í lög hér á landi.

Árósasamningurinn er ný tegund samnings um umhverfismál. Hann tengir saman mannréttindi og umhverfisrétt, staðfestir þær skyldur sem við höfum að gegna gagnvart komandi kynslóðum og viðurkennir að til að sjálfbærri þróun sé náð sé nauðsynlegt að allir hagsmunaaðilar komi að ákvarðanatöku. Þrjár meginstoðir samningsins eru eftirfarandi:

  1. Réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál.
  2. Réttur almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar undirbúnar eru ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum.
  3. Aðgangur að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila.

Hvað Ísland snertir telst fyrstu tveimur stoðum samningsins þegar vera fullnægt hér á landi. Starfshópurinn beindi því sjónum sínum að þeirri þriðju og skoðaði með hvaða hætti ætti að tryggja hér á landi ákvæði samningsins um réttláta málsmeðferð í umhverfismálum. Það verður gert m.a. með því að tryggja að unnt sé að leggja ákvarðanir um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fyrir dómstóla eða óháða úrskurðarðaðila til endurskoðunar og að umhverfisverndarsamtök geti átt aðild að slíkum málum.

Telur starfshópurinn að tvær leiðir séu færar til að innleiða þriðju stoð Árósasamningsins í lög hér á landi. Annars vegar með hinni svökölluðu dómstólaleið og hins vegar með hinni svokölluðu stjórnsýsluleið. Samkvæmt stjórnsýsluleiðinni er gert ráð fyrir sjálfstæðum úrskurðarnefndum sem fjalla m.a. um endurskoðun ákvarðana. Er í skýrslu starfshópsins gerð grein fyrir kostum og göllum hvorrar leiðar fyrir sig.

Starfshópurinn telur að stjórnsýsluleiðin uppfylli skilyrði Árósasamningsins og leggur til að hún verði farin. Með henni er tryggt að endurskoðun taki bæði til forms og efnis og að sú leið á að tryggja vandaða málsmeðferð í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Þá hefur stjórnsýsluleiðin ekki verið talin kostnaðarsöm fyrir kærendur enda kærugjöld lág eða engin. Endurskoðun samkvæmt stjórnsýsluleið yrði hjá óháðum og hlutlausum úrskurðarnefndum. Verði stjórnsýsluleiðin fyrir valinu þurfa stjórnvöld að tryggja að sú leið sé fljótvirk.

Starfshópurinn telur jafnframt að stjórnsýsluleiðin falli betur að núverandi skipan mála hér á landi varðandi endurskoðun ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda og sé því mun nærtækari kostur við innleiðingu Árósasamningsins en dómstólaleiðin.

Starfshópurinn leggur til að skipuð verði nefnd til að vinna lagafrumvarp til innleiðingar á Árósasamningnum.

Nánari yfirferð og rökstuðning nefndarinnar má finna í skýrslunni sjálfri.

Frekari upplýsingar:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum