Hoppa yfir valmynd
29. október 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra ávarpar þing Norðurlandaráðs

Umhverfisráðherra ávarpar þing Norðurlandaráðs
Umhverfisráðherra ávarpar þing Norðurlandaráðs

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti ræðu fyrir hönd norrænu umhverfisráðherranna á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í gær. Í ræðunni gerði hún grein fyrir stöðu mála í alþjóðlegum viðræðum um loftslagsmál og framlagi Norðurlandanna til samningaferilsins. Í kjölfarið svaraði ráðherrann fyrirspurnum norrænna þingmanna um loftslagsmál. Í ræðu sinni sagði umhverfisráðherra meðal annars að Norðurlöndin hefðu verið frumherjar við þróun lýðræðislegra velferðarríkja og að þau gætu líka orðið frumherjar í þróun sjálfbærra samfélaga. Ræðan er birt í heild sinni neðar í þessari frétt.

Í gær sótti umhverfisráðherra fundi norrænna umhverfisráðherra og umhverfis- og auðlindanefndar Norðurlandaráðs. Á fundi norrænna umhverfisráðherra var meðal annars rætt um hvernig ætti að fjármagna samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda þróunarríkjanna. Norðurlöndin hafa verið í fararbroddi í þeim efnum en Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) veitir styrki til loftslagsverkefna í fátækari löndum. Ráðherrarnir samþykktu einnig að framlengja umboð norræna COP15-hópsins. Hópurinn, sem í sitja loftslagssérfræðingar frá öllum Norðurlöndunum, hefur tekið þátt í samningaferlinu með greiningum og alþjóðlegum vinnustofum um helstu lykilatriði í loftslagsmálum. Jafnframt kynnti Danmörk umhverfisáætlun í tengslum við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2010. Fyrst og fremst verður lögð áhersla á umhverfis- og heilbirgðismál, líffræðilegan fjölbreytileika, loftslagsmál og sjálfbæra neyslu og framleiðslu.

Hægt er að nálgast upplýsingar um þing Norðurlandaráðs á norden.org.

Ræða Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi 2009.

Í dag eru einungsi 39 dagar þangað til COP 15 fundurinn hefst og miklar væntingar eru til þess að fundurinn verði mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir þá ógn sem heiminum stendur af loftslagsbreytingum. Einnig má skynja nokkrar áhyggjur um hvort okkur takist ætlunarverk okkar og það er auðvelt að finna merki sem styðja þær áhyggjur. Samningstekstinn er langur og flókinn og það verður mikið verk að setja saman teksta sem heimsbyggðin getur orðið sammála um á þeim stutta tíma sem við höfum. Einnig eru efasemdir um hve fúsir þeir sem mestu máli skipta eru til að gera þær málamiðlanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja pólitískan árangur.

Ég er sannfærð um að við munum ná miklum árangri í Kaupmannahöfn og við munum gera allt sem við getum til að tryggja að fundurinn takist vel. Það er ljóst að við munum ekki koma út úr fundarherbergjunum í Bella Center með fullkomna uppskrift um hvernig við náum tökum á loftslagsbreytingum á 21. öldinni og það er hreinlega ómögulegt með hliðsjón af þeim flóknu verkefnum sem loftslagsvandinn felur í sér. En við getum og við verðum að ná niðurstöðu um pólitískan samning með sameiginlegri sýn um hvernig við ætlum að vinna að lausn loftslagsvandans eftir gildistíma Kyotobókunarinnar. Þegar þeim áfanga er náð muni aðrir hlutar pússluspilsins ganga upp. Í Kaupmannahöfn verður hin stóra mynd dregin upp en það verður margt sem semja þarf um í kjölfarið.

Hvernig geta Norðurlöndin lagt sitt af mörkum til að leysa loftslagsvandann ekki aðeins á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn heldur líka í kjölfar hennar? Ég vil undirstrika tvennt.

Í fyrsta lagi verðum við að sýna styrk í hinni alþjóðlegu umræðu. Loftslagsbreytingarnar eru alþjóðlegt mál og ef við eigum að gera okkur vonir um að ná árangri verðum við að vinna að málinu á alþjóðavettvangi. Norðurlöndin hafa sýnt framsýni í málinu og tekið frumkvæði í samningaviðræðunum. Öll löndin styðja takmarkið um að hitastig hækki að hámarki um 2 gráður og öll löndin styðja metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það skiptir ekki máli í samningaviðræðunum að Norðurlöndin starfa í tveimur mismunandi hópum, annars vegar ESB og hins vegar í regnhlífarhópnum svokallaða. Þessar aðstæður geta brúað bil þegar nýjar hugmyndir eru kynntar og leita þarf stuðnings í öðrum þessara hópa. Norræni CoP 15 hópurinn hefur skoðað margar hugmyndir, efnt til funda og kynnt verkefni sem stuðla að góðum árangri á loftslagsráðstefnunni.

Í öðru lagi vil ég nefna að Norðurlöndin geta verið í fararbroddi við að draga úr loftslagsbreytingum. Orð og loforð eru nauðsynleg en það er alltaf mjög jákvætt að geta bent á aðgerðir sem hægt er að yfirfæra til annarra. Fullyrða má að á Norðurlöndunum er þegar að finna fjölda áhugaverðra loftslagsverkefna og tækni t.d. endurnýjanlega orku, lífmassa og bætta orkunýtni. Hið sama má segja um nýjungar í stefnumótun og má í því tilliti t.d. nefna notkun hagrænna stjórntækja, hvatningu til nýsköpunar og opinberan stuðning við umhverfisvæn verkefni. Þeir sem heimsækja Kaupmannahöfn geta lært margt af því að skoða skipulag og samgöngukerfi í einni af reiðhjólahöfuðborgunum í okkar heimshluta. Norðurlöndin geta verið stolt af því sem þau gera nú þegar til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Ísíðasta Climate Change Performance Index, sem Germanwatch gefur út, tróna Norðurlöndin á toppnum.

Að þessu sögðu vil ég þó undirstrika að við skulum ekki leggja of mikið upp úr listum af þessu tagi, þeir eru ekki alltaf vísindalegir og við megum ekki sofna á verðinum vegna staðsetningar okkar á listum sem þessum. En einn þátt á þessum lista ber þó að gaumgæfa nánar. Þeir sem unnu þennan lista ákváðu að hafa þrjú efstu sætin tóm. Þetta leiddi til þess að Svíþjóð komst ekki hærre en í fjórða sæti! Þetta var útskýrt með því að ekki sé að finna eitt einasta landa í heiminum sem vinnur að öllu því sem gera þarf til að forðast loftslagsógnina.

Loftslagsvandinn getur virst vera enn flóknari en ella nú í kjölfar efnahagskreppunnar sem reyndar hefur leikið Ísland sérlega illa. Kreppan virkar sem nokkurs konar sía hvað varðar vilja og fjárframlög í flestum löndum. En tækifærin eru mörg og rannsóknir sýna að heilsteypt loftslagsstefna getur haft góð áhrif á efnahagslífið.

Norðurlöndin hafa verið frumherjar við þróun lýðræðislegra velferðarríkja. Við getum líka verið frumherjar í þróun sjálfbærra samfélaga. Norðurlöndin eiga að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi í öllu norrænu samstarfi í framtíðinni. Þetta er nú þegar sýnilegt í því frumkvæði sem Norðurlönd hafa tekið hvað varðar sjálfbærni og leiðandi hlutverki þeirra í málefnum heimskautasvæða þar sem áhrif loftslagsbreytinga eru einna greinilegust.

Vinnum saman að því að ná góðum árangri í Kaupmannahöfn og verum í fararbroddi í baráttunni gegn hættulegum loftslagsbreytingum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum