Hoppa yfir valmynd
29. október 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fræðslumyndband um hóflega rjúpnaveiði

Fræðslumyndband um hóflega rjúpnaveiði var frumsýnt í sjónvarpi í gær. Myndin er samstarfsverkefni Skotveiðifélags Íslands, umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.

Í myndinni er fjallað um sjálfbærar veiðar á rjúpum. Fjallað er um sögu rjúpnaveiða hér á landi og ástæður fækkunar í rjúpnastofninum. Þá er einnig fjallað um þær aðferðir sem beitt hefur verið til að byggja stofninn upp aftur og framtíðarnýtingu hans.

Hægt er að skoða myndina á vef Ríkissjónvarpsins og á heimasíðu Skotveiðifélags Íslands.

Rjúpnaveiðitímabilið í ár hefst föstudaginn 30. október og stendur til sunnudagsins 6. desember. Veiðar eru heimilar föstudaga, laugardaga og sunnudaga á tímabilinu. Sölubann gildir áfram á rjúpu og öllum rjúpnaafurðum. Áfram er friðað fyrir veiði á ákveðnu svæði á Suðvesturlandi. Rjúpnaskyttur eru sem fyrr hvattar til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar. Virkt eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum