Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stækkun þjóðgarðs og skóflustunga að gestastofu

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tekur skóflustungu að gestastofu að Skriðuklaustri.
Við Skriðuklaustur

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag og undirritaði við það tækifæri reglugerð um stækkun þjóðgarðsins til norðurs. Stækunin er innan marka Skútustaðahrepps og verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum. Stækkunin nemur 1.900 km² og er þá þjóðgarðurinn orðinn 13.610 km² að stærð.

Í Gestastofunni á Skriðuklaustri verður sett upp kynning á þjóðgarðinum og þar verður hægt að nálgast allar upplýsingar um þjóðgarðinn og nágrenni hans, gönguleiðir, náttúrufar, sögu, þjónustu og afþreyingu. Ljúka á byggingu gestastofunnar fyrir 15. maí 2010. Gestastofur verða meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs og þaðan verður landvörslu og daglegum rekstri hvers rekstrarsvæðis þjóðgarðsins stjórnað.

Gestastofan á Skriðuklaustri verður fyrsta byggingin hér á landi sem verður byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum.

Askja er sigketill sem að verulegu leyti hefur myndast á nútíma og er eitt virkasta eldfjall landsins og merk á heimsvísu. Öskjuvatn í suðausturhluta öskjunnar er myndað við mikið öskugos 1875 og er dýpsta vatn landsins (220 m) og það langstærsta (10,7 km²) í yfir 1.000 m hæð yfir sjó. Í Ódáðahrauni eru víðáttumiklar ósnortnar hraunbreiður, dyngjur og gígaraðir.

Eldstöðin Askja með Öskjuvatni og sprengigígnum Víti eru merkar jarðfræðiminjar á lands- og jafnvel heimsvísu.

Kort af Vatnajökulsþjóðgarði eftir stækkun.

Heimasíða Vatnajökulsþjóðgarðs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum