Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mikilvæg verkefni á vettvangi umhverfismála í Evrópu

Spánarsnigillinn
Spánarsnigillinn

Umhverfisstofnun Evrópu hefur gefið út skýrslu um átta mikilvæg verkefni á vettvangi umhverfismála í Evrópu um þessar mundir. Skýrslan heitir Umhverfisteikn 2009: Helstu umhverfisáskoranir í Evrópu. Í skýrslunni er m.a. fjallað um framrás Spánarsnigilsins og áhrif hans á líffræðilega fjölbreytni, hugmyndir um strangari takmarkanir af hálfu Evrópusambandsins á losun loftmengandi efna og vakin er athygli á aðferðum sem beitt er við að komast undan banni við útflutningi á raftækjaúrgangi til þróunarríkja. Þá er einnig fjallað um þann góða árangur sem náðst hefur í að draga úr losun brennisteins í Evrópu, en hún dróst saman um 70% milli áranna 1990 og 2006.

Umhverfisráðherra Tékklands og Jacqueline McGlade, forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu, kynntu skýrsluna í Prag í dag, en Tékkar fara nú með forsæti í Evrópusambandinu. Von er á viðameiri skýrslu á næsta ári um stöðu umhverfismála í Evrópu (State of the Environment Report 2010) en slík skýrsla er gefin út á fimm ára fresti.

Umhverfisstofnun Evrópu er ein af fagstofnunum Evrópusambandsins og er staðsett í Kaupmannahöfn. Starfsemi stofnunarinnar hófst árið 1994 og hefur Ísland átt aðild að stofnuninni frá upphafi. Hlutverk stofnunarinnar er að samhæfa upplýsingar og vöktun á sviði umhverfismála og koma upp evrópsku upplýsinganeti á því sviði. Nú eiga 32 ríki aðild að stofnuninni, þ.e.a.s. ESB ríkin 27, öll ríki EFTA (Noregur, Ísland, Sviss og Liechtenstein) ásamt Tyrklandi. Dr. Hermann Sveinbjörnsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, á sæti í stjórn Umhverfisstofnunar Evrópu fyrir Íslands hönd.

Umhverfisteikn 2009: Helstu umhverfisáskoranir í Evrópu (pdf-skjal).

Heimasíða Umhverfisstofnunar Evrópu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum