Hoppa yfir valmynd
5. júní 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný lög og breytingar á eldri lögum við þinghlé

Alþingi
Alþingi

Á yfirstandandi þingi, sem nú hefur verið frestað fram á haust, hafa sex lagafrumvörp verið samþykkt sem umhverfisráðherra lagði fram. Um er að ræða breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs, breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, ný lög um nýja stofnun sem ber heitið Veðurstofa Íslands og ný lög um efni og efnablöndur. Að auki voru samþykktar breytingar á lögum um úrvinnslugjald en þær verða ekki raktar hér.

Veðurstofa Íslands

Í lögum um flutning verkefna innan Stjórnarráðsins, var m.a. kveðið á um stofnun nýrrar stofnunar um verkefni Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar, sem taki til starfa innan stjórnsýslu umhverfisráðuneytisins eigi síðar en 1. janúar 2009. Hin nýja stofnun mun gegna afar víðtæku hlutverki á sviði vöktunar og rannsókna á ólífrænni náttúru. Stofnunin mun þrátt fyrir það bera nafn Veðurstofu Íslands sem á sér langa sögu, er vel þekkt meðal þjóðarinnar og skipar ákveðinn sess í huga hennar.

Í nýju lögunum er á því byggt að öll núverandi verkefni Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar færist yfir til nýrrar stofnunar. Auk fyrra hlutverks Veðurstofu Íslands á sviði veðurathugana, jarðmælinga og öryggisvöktunar náttúruvár mun stofnunin annast almennar rannsóknir á vatnafari og loftslagi og verða miðstöð umhverfisráðuneytisins í vöktun lofts, vatns, jarðar og elds. Með sameiningu Veðurstofu Íslands og vatnamælinga er stefnt að hagræðingu í starfi og styrkari samvinnu á öllum sviðum sem lúta að jarðskorpuhreyfingum, veðurfari og vatnafari, vöktun náttúru og viðbrögðum við náttúruvá. Sameinuð stofnun hefur þannig breiðara fagsvið og meiri styrk til að sinna ýmsum verkefnum í náttúru Íslands sem fram til þessa hafa legið utan garðs. Þá munu rannsóknir vegna loftslagsbreytinga, sem nauðsynlegt er að auka á næstu árum, falla vel að starfsemi hinnar nýju stofnunar svo og aukin áhersla á vöktun og viðvörun vegna náttúruvár af ýmsu tagi. Nýja stofnunin mun enn fremur styrkja umhverfisráðuneytið í umsjón vatnsauðlinda samkvæmt alþjóðasamningum og í alþjóðasamstarfi sem Ísland hefur gerst aðili að, jafnframt því að styrkja framfylgd evrópsku vatnatilskipunarinnar sem tekin hefur verið upp hér á landi og nær til alls fersks vatns og strandsjávar.

Nánari upplýsingar um málið á heimasíðu Alþingis.

Efni og efnablöndur

Innan Evrópusambandsins var í lok árs 2006 samþykkt ný efnalöggjöf um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir efna og efnavara, svokölluð REACH-reglugerð. Reglugerðin tók gildi innan Evrópusambandsins þann 1. júní 2007. Markmið löggjafarinnar er annars vegar að tryggja að meðferð á efnum valdi ekki tjóni á heilsu manna og dýra eða á umhverfi og hins vegar að tryggja frjálst flæði á efnavörum á markaði. Með samþykkt laga á Alþingi um efni og efnablöndur hefur verið sett lagastoð fyrir innleiðingu REACH-reglugerðarinnar hér á landi. Grundvallarhugsunin að baki REACH er að öll efni sem framleidd eru eða sett á markað á EES-svæðinu verði skráð og greind og þau efni sem hafi hættulega eiginleika verði háð notkunartakmörkunum. Ein af grundvallarreglum reglugerðarinnar er að hættulegum efnum verði markvisst skipt út fyrir hættuminni staðgengilsefni sem vitað er að koma að sambærilegum notum.

Nánari upplýsingar um málið á heimasíðu Alþingis.

Meðhöndlun úrgangs

Breytingar voru gerðar á lögum um meðhöndlun úrgangs til að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um raf- og rafeindatækjaúrgang. Breytingar á lögunum byggja á svokallaðri framleiðendaábyrgð. Markmið frumvarpsins er að draga úr myndun raftækja- og rafeindatækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem koma að vörunni á lífsferli hennar. Með breytingum á lögunum eru settar skyldur á framleiðendur og innflytjendur til að fjármagna, safna, meðhöndla og eftir atvikum endurnýta raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Notendur raf- og rafeindatækja á heimilum munu eiga möguleika á því að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi á almennar söfnunarstöðvar í sveitarfélögum án þess að greiða fyrir það. Það eru því framleiðendur sem eiga að fjármagna geymslu, söfnun frá söfnunarstöðvum og meðferð, endurnýtingu og förgun á rafeindatækjaúrgangi. Þannig skal hver framleiðandi bera ábyrgð á því að fjármagna meðferð úrgangs frá eigin framleiðslu.

Nánari upplýsingar um málið á heimasíðu Alþingis.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Þrenns konar breytingar voru gerðar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Í fyrsta lagi voru breytingarnar gerðar í þeim tilgangi að skerpa á þeirri skyldu sem kveðið er á um í gildandi lögum um skil á veiðiskýrslum. Veiðiskýrslurnar hafa afar mikilvægt rannsóknar- og upplýsingagildi við mat á ástandi og stofnstærð villtra fugla og spendýra og eru því afar mikilvægt tæki til að styrkja og bæta árangur í skipulagi og stjórnun varðandi friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Í lögunum var hvorki að finna sérstakan hvata né úrræði til að framfylgja þeirri skyldu sem kveðið er á um skil á veiðiskýrslum en með breytingum á lögunum hefur verið bætt úr því. Til að tryggja að skýrslum verði ávallt skilað er útgáfa nýs veiðikorts óheimil hafi veiðikorthafi ekki skilað veiðiskýrslu frá fyrra tímabili. Þá er Umhverfisstofnun gert skylt að leggja 1.500 kr. á sérhverja leyfisgjaldsupphæð ef veiðikorthafi hefur ekki skilað veiðiskýrslu innan lögmæltra tímamarka. Lagt er til að Umhverfisstofnun auglýsi með áberandi hætti hvenær beri að skila veiðiskýrslum, með hæfilegum fyrirvara, svo síður þurfi að koma til greiðslu þessa aukagjalds.

Í öðru lagi hefur gjald fyrir útgáfu á nýju veiðikorti verið hækkað úr 2.200 kr. í 3.500 krónur. Einnig þykir ástæða til að styrkja rannsóknir vegna veiða úr veiðikortasjóði en auknar rannsóknir eru forsenda fyrir því að bæta skipulag og stjórn á friðun og veiðum villtra dýra.

Í þriðja lagi hefur verið lögfest heimild fyrir Umhverfisstofnun til að halda leiðsögumannanámskeið vegna hreindýraveiða og jafnframt til að innheimta kostnað við slíkt námskeiðahald. Áríðandi þykir að taka af allan vafa um að Umhverfisstofnun sé heimilt að halda slík námskeið með tilheyrandi eðlilegri gjaldtöku en í gildandi lögum er slíkum ákvæðum ekki fyrir að fara. Brýnt er orðið að halda námskeið fyrir leiðsögumenn vegna hreindýraveiða þar sem skortur er orðinn á leiðsögumönnum.

Nánari upplýsingar um málið á heimasíðu Alþingis.

Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum voru gerðar í þeim tilgangi að veita ráðherra heimild til að fela Veðurstofu Íslands að gera úttekt á hættu á ofanflóðum, þ.e. snjóflóðum og skriðuföllum í dreifbýli á þeim stöðum þar sem slík flóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða ef hætta er talin á slíku.

Ástæða breytingarinnar er einkum sú að í lögunum var ekki fyrir hendi heimild til að Ofanflóðasjóður greiði kostnað fyrir mat á hættu vegna ofanflóða í dreifbýli enda var með lagasetningu og eflingu ofanflóðasjóðs í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri 1995 fyrst og fremst litið til þess vanda sem við blasti í þéttri byggð sveitarfélaga sem bjuggu við ofanflóðahættu.

Sveitarfélög og framkvæmdaaðilar verða eftir sem áður að standa undir þeim kostnaði sem fylgir gerð hættumats á nýjum byggingasvæðum. Ekki er gert ráð fyrir því að heimildin nái til frístundabyggðar.

Nánari upplýsingar um málið á heimasíðu Alþingis.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum