Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Endurskoðun dýraverndarlaga hafin

Umhverfisráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða dýraverndarlög. Markmið með endurskoðun laganna er m.a. að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar verði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd. Í því sambandi verður skoðað hvort endurskoða þurfi þvingunarúrræði og viðurlög laganna. Nefndin á einnig að fara yfir efnisákvæði laganna varðandi vernd dýra og kanna hvort þörf sé á að auka þá vernd. Þá á nefndin að taka til athugunar hvort ástæða sé til að setja ákvæði um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni í lög og gera tillögur um ákvæði varðandi aðferðir við að fanga gæludýr sem sloppið hafa úr umsjón manna, ganga laus og þykja til ama. Einnig á nefndin að meta hvort tilefni sé til að setja ákvæði um eyðingu meindýra í lögin. Þá mun nefndin jafnframt fara yfir ákvæði laga um búfjárhald og laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sem varða dýravernd með það fyrir augum að samræma sem best ákvæði þessara laga og laga um dýravernd. Nefndin mun hafa samráð við dómsmálaráðuneytið varðandi hlutverk lögregluyfirvalda við framkvæmd dýraverndar.

Nefndina skipa:

Sigrún Ágústsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, formaður.
Sigurborg Daðadóttir, dýralæknir.
Sif Traustadóttir, dýralæknir.
Kristinn Hugason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.
Hjalti J. Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum