Hoppa yfir valmynd
10. september 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Unnið að olíuhreinsun í El Grillo

Aðgerðir við El Grillo hafa nú staðið yfir í um viku. Strekkingsvindur og kvika á Seyðisfirði töfðu framgang verksins um tíma en um helgina hefur veðrið verið hagstætt og olíuleit og olíudæling gengið snuðrulaust. Til þessa hefur eingöngu verið unnið í afturskipinu og hafa 12 aðaltankar ásamt 12 minni hliðartönkum verið athugaðir. Til viðbótar voru könnuð lokuð rými í skut skipsins og reyndist lítið magn af olíu í öðru þeirra.

Dæling olíunnar hófst á föstudag sl. og er þegar búið að dæla um 25 tonn í olískip sem liggur á firðinum. Enn sem komið hefur heldur minni olía fundist í flakinu en fyrri athuganir bentu til. Munar þar mestu að tveir af fjórum aðaltönkum undir brú skipsins reyndust tómir.

Í kvöld lýkur dælingu í afturhluta skipsins og á morgun færist aðgerð norska verktakans Riise Underwater Engineering fram fyrir brú El Grillo þar sem kannaðir verða 8 aðaltankar og jafnmargir hliðartankar.

Áætlað er að olíuhreinsun ljúki 21. september og er verkið á áætlun.

Nánari upplýsingar um framgang verksins gefur Davíð Egilson forstjóri Hollustuverndar ríkisins en á heimasíðu Hollustuverndar (hollver.is) getur að líta ýmsan fróðleik tengdan olíuhreinsuninni.


Fréttatilkynning nr. 14/2001
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum