Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfshópur kannar möguleika á framleiðendaábyrgð á prentpappír

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að skoða möguleika á að koma á framleiðendaábyrgð á pentpappír, t.d. pappír sem er notaður í dagblöð, tímarit, bæklinga og bækur.

Inn á söfnunarstöðvar sveitarfélaga, í grenndargáma og með heimahirðu almenns heimilisúrgangs kemur verulega mikið af óumbeðnum pósti, s.s. dagblöðum og auglýsingarbæklingum. Magn fjölpósts hefur aukist um 76% frá árinu 2003 og allt að 75% blaða og bæklinga sem berast inn á heimilin eru borin þangað án þess að þess hafi verið óskað. Þessi þróun hefur aukið sorpmagn án þess að það hafi skilað sér í betri flokkun sorps til endurvinnslu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að sér þætti þetta óviðunandi ástand og því væri nú gripið til þessa ráðs. Hún sagðist telja mikilvægt að auka ábyrgð þeirra sem framleiða og flytja inn blöð, tímarit og bækur þannig að þeir beri kostnað vegna meðhöndlunar þessara vara þegar þær eru orðnar að úrgangi.

Að undanförnu hafa fulltrúar umhverfisráðuneytisins átt í viðræðum við við fulltrúa atvinnulífsins, sveitarfélaga og Úrvinnslusjóð um þessi mál. Þar hefur komið fram mikill vilji til að taka á þessum málum og má vænta aðgerða í þessum efnum strax á næsta ári.

Í framleiðendaábyrgð fellst að framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á fjármögnun og úrvinnslu þess úrgangs sem hlýst af þeirra vörur og þjónustu.

Gert er ráð fyrir að í hópnum muni eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytisins, íslenskra stórkaupmanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Umhverfisstofnunar og Úrvinnslusjóðs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum