Fréttasafn

25.4.2003

Kuðungurinn umhverfisviðurkenning umhverfisráðuneytisins var veitt í dag

Umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir veitti í dag, á Degi umhverfisins 25. apríl, Árvakri hf. útgáfufélagi Morgunblaðsins umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins vegna ársins 2002. Haraldur Sveinsson, formaður stjórnar Árvakurs hf. tók við viðurkenningunni í Morgunblaðshúsinu í morgun.

Samdóma álit var að Árvakur hf. útgáfufélag Morgunblaðsins skyldi hljóta umhverfisviðurkenninguna fyrir árið 2002 þar sem félagið tók á árinu 2002 upp umhverfisstjórnun í samræmi við alþjóðastaðalinn ISO 14001. Árvakur hf. er þar með þriðja íslenska fyrirtækið sem hlýtur þessa vottun en áður hafa fyrirtækin ÍSAL og Borgarplast fengið vottun samkvæmt staðlinum.

Í ár er starfsemi í Morgunblaðshúsinu að fá viðurkenningu ráðuneytisins í annað sinn, en árið 1996 var prentsmiðju Morgunblaðsins veitt þessi viðurkenning vegna ársins 1995. Ráðuneytið óskar starfsmönnum og stjórnendum Árvakurs hf. til hamingju með góðan árangur á sviði umhverfismála í rekstri félagsins og viðurkenninguna með von um að hún hvetji til sóknar á sviði umhverfisstjórnunar hjá fleiri fyrirtækjum.

Hannað hefur verið sérstakt merki (logo) fyrir viðurkenninguna og fær það fyrirtæki, sem viðurkenninguna hlýtur, rétt til að nota merkið í eitt ár eftir úthlutun. Merkið er kuðungur sem Kristín Þorkelsdóttir, sem er grafískur hönnuður, hannaði. Auk þess fær verðlaunahafinn sérhannaðan Kuðung til eignar sem í ár er hannaður af listakonunni Guðnýju Hafsteinsdóttur.

Fréttatilkynning nr. 13/2003
Umhverfisráðuneytið