Hoppa yfir valmynd
11. september 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á starfsskipulagi umhverfisráðuneytisins

Skipurit umhverfisráðuneytisins
Nýtt skipurit umhverfisraduneytisins

Gerðar hafa verið breytingar á starfsskipulagi umhverfisráðuneytisins og tóku breytingarnar gildi 1. september síðastliðinn. Meginbreytingin er sú að skrifstofum ráðuneytisins fækkar úr fjórum í þrjár. Markmiðið með breytingunum er að móta nýtt starfsskipulag ráðuneytisins með hliðsjón af núverandi verkefnum þess og líklegum áherslum og forgangsverkefnum á næstu árum. Leiðarljós við endurskoðunina var að treysta skilvirkni í störfum ráðuneytisins, efla stefnumótunarstarf þess og styrkja yfirsýn ráðuneytisins yfir starfsemi stofnana þess. Skrifstofur ráðuneytisins eru nú skrifstofa laga og stjórnsýslu, skrifstofa stefnumótunar og alþjóðamála og skrifstofa fjármála og rekstrar. Hér er hægt að skoða nýtt skipurit og verkefnaskiptingu skrifstofa.

Þá hafa einnig orðið þær breytingar á störfum umhverfisráðuneytisins að Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri tók við starfi sendiráðunautar í Brussel 1. september síðastliðinn af Þórði H. Ólafssyni skrifstofustjóra. Hann hefur gegnt starfi sendiráðunautar umhverfisráðuneytisins í Brussel síðastliðin rúm þrjú ár og mun hverfa til annarra starfa.

Skrifstofustjóri skrifstofu laga og stjórnsýslu er Sigríður Auður Arnardóttir og Ingibjörg Halldórsdóttir lögfræðingur verður staðgengill hennar. Sigríður Auður mun einnig gegna starfi staðgengils ráðuneytisstjóra.

Skrifstofustjóri stefnumótunar og alþjóðamála er Hugi Ólafsson og mun Sigurður Ármann Þráinsson verða staðgengill hans.

Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar er Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir.

Þá hefur einnig orðið sú breyting á starfsskipulaginu að upplýsingafulltrúi heyrir beint undir ráðuneytisstjóra en starfið tilheyrði í fyrra starfsskipulagi skrifstofu laga- og upplýsingamála.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum