Hoppa yfir valmynd
22. júní 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Almenningi gefst kostur á að gera athugasemd við drög að nýrri hávaðareglugerð

Drög að nýrri reglugerð um hávaða
Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að gerð nýrrar reglugerðar um hávaða.

Almenningi gefst nú kostur á að koma á framfæri við umhverfisráðuneytið athugasemdum vegna undirbúnings að nýrri reglugerð um hávaða. Starfshópur á vegum umhverfisráðuneytisins hefur skrifað drög að reglugerðinni og er um að ræða endurskoðun reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða. Starfshópinn skipuðu starfsmenn umhverfisráðuneytisins, fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar.

Árið 2004 voru unnin drög að reglugerð um hávaða hjá umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun. Með hliðsjón af fjölda og umfangi athugasemda umsagnaraðila var ákveðið að vinna ný drög sem almenningi er nú gefinn kostur á að gera athugasemdir við.

Starfshópurinn settir sér eftirfarandi markmið með endurskoðun reglugerðarinnar:

  • Endurskoðun gildandi hávaðamarka með það að markmiði að umhverfismörk fyrir hávaða veiti viðunandi hávaðavernd, en séu jafnframt raunhæf m.t.t. skipulags, umferðar og atvinnustarfsemi.
  • Að auka skýrleika gildandi reglna.
  • Að draga úr réttaróvissu.
  • Að fylla í eyður sem fram hafa komið í framkvæmd eldri reglugerðar.
  • Samræming við reglugerð um kortlagningu hávaða og aðrar reglugerðir.
  • Markvisst samráð við hagsmunaaðila, fagaðila og stjórnvöld sem koma að framkvæmd reglugerðarinnar.

Umhverfisráðuneytið vill vekja sérstaka athygli á eftirfarandi atriðum í reglugerðardrögunum:

  • Settar eru fram endurskoðaðar töflur þar sem fram koma með skýrum hætti viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða. Gerð er tillaga um mörk fyrir hljóðstig utan- og innanhúss vegna hávaða frá umferð og atvinnustarfsemi.  
  • Felld eru niður fráviksmörk vegna umferðarhávaða.
  • Hávaði frá atvinnustarfsemi: Hljóðstig utanhúss er óbreytt frá gildandi reglugerð, en nú eru einnig sett mörk innanhúss. Í gildandi reglugerð eru innanhúsmörk eingöngu vegna umferðarhávaða.
  • Hávaði frá umferð:  Hljóðstig utanhúss á íbúðarsvæðum er óbreytt, en nú er heimilt hærra hljóðstig utanhúss á miðsvæðum, eins og þau svæði eru skilgreind í 3.gr. reglugerðarinnar.
  • Dvalarsvæði á lóð: Mörk fyrir hljóðstig á dvalarsvæðum fólks á lóð verði þau sömu í íbúðabyggð og á miðsvæðum. Þetta þýðir að heimilt er að hafa hærra hljóðstig á þeim hluta lóðar sem ekki er ætlaður til útivistar. Dvalarsvæði á lóð eru afmörkuð af skipulags- og byggingaryfirvöldum.
  • Skipulagsyfirvöld hafa sveigjanleika til að styðjast við hávaðamörk í samræmi við hljóðflokkunarstaðal fyrir íbúðarhúsnæði (ÍST 45:2003) á afmörkuðum svæðum. Notkun staðalsins kæmi þá í stað þeirra marka sem tilgreind eru í viðauka með reglugerðinni.  Í staðlinum eru ekki tilgreind hámarksmörk á háværari hlið húsnæðis, en á móti eru í staðlinum gerðar frekari kröfur um gæði húsnæðisins að öðru leyti. Kröfur í staðlinum eru að hluta til strangari en í gildandi byggingarreglugerð.
  • Mörk fyrir hljóðstig á samkomustöðum verði sett þau sömu og stuðst hefur verið við í Reykjavík undanfarin ár. Viðbótarkröfur eru gerðar þar sem börn koma saman.
  • Sett eru umhverfismörk fyrir hávaða frá  flugvöllum. Mörk fyrir hljóðstig frá flugumferð hafa ekki verið tilgreind áður í  reglugerð.
  • Í ákvæðum til bráðabirgða kemur fram að ákvæði þessarar nýju reglugerðar hafi ekki áhrif á gildandi skipulagsáætlanir, sem fela í sér ákvarðanir um hljóðvist, frávik og/eða mótvægisaðgerðir samkvæmt gildandi reglugerð um hávaða.


Reglugerðar
drögin hafa verið send til umsagnar fjölmargra aðila. Hér með er öllum almenningi gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við reglugerðardrögin fyrir 15. september nk. Að loknum kynningartíma verður farið yfir umsagnir og athugasemdir sem berast ráðuneytinu og unnið úr þeim. Umsögnum og athugasemdum verður ekki svarað sérstaklega.

Umsagnir og athugasemdir merktar ,,athugasemd vegna hávaðareglugerðar” sendist rafrænt til umhverfisráðuneytisins á netfangið: [email protected].

Hægt er að lesa reglugerðardrögin í heild sinni á vef umhverfisráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum