Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Varðliðar umhverfisins 2007

Verkefni Foldaskóla
Er mengun hluti af þínu daglega lífi?

Nemendur úr Hólabrekkuskóla, Grunnskóla Tálknafjarðar, Álftamýrarskóla, Foldaskóla og Lýsuhólsskóla voru útnefndir varðliðar umhverfisins við athöfn á Kjarvalsstöðum í gær. Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni sem umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur efndu til í fyrsta skipti í ár. Tilgangur keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.

Nemendur FoldaskólaBekkur 53 í Hólabrekkuskóla söfnuðu ruslpósti heima hjá sér í fjórar vikur og komu með í skólann. Þeir margfölduðu svo meðaltal þess sem barst þeim með fjölda heimila á Íslandi. Nemendurnir komust m.a. að því að ruslpóstur sem berst inn á heimili Íslendinga á ári er nærri því jafn mikill að rúmmáli og blokk í nágrenni skólans og u.þ.b. jafn þungur og 14 strætisvagnar.

Nemendur úr Grunnskóla TálknafjarðarNemendur í Grunnskóla Tálknafjarðar bjuggu til skilti sem voru sett upp við skólann, íþróttahúsið, tjaldsvæðið, sveitarskrifstofuna, leikskólann, verslunina og út við Poll sem er laug út með Tálknafirði. Nemendur sömdu í sameiningu hentug slagorð á spjöldin. Þá var gerður umhverfissáttmáli milli nemenda og starfsfólks skólans og íbúa Tálknafjarðar. Sáttmálinn var settur á tvö spjöld og íbúar rituðu nöfn sín á spjöldin sem síðan voru hengd upp á hreppsskrifstofunni og í skólanum.

Nemendur úr ÁlftamýrarskólaKalman Stefánsson, Jón Rafn Hjálmarsson, Marteinn Arnarson og Sigurgeir Þórisson, nemendur í Álftamýrarskóla gerðu viðhorfskönnun í Kringlunni. M.a. spurt hvort fólk flokki rusl, hvort það hendi rusli á víðavangi og hvort það væri nægilega mikið af ruslatunnum á götum borgarinnar. Síðara verkefnið hét Við eigum aðeins eina jörð. Í því var fjallað um hvað einstaklingurinn getur gert til að bæta umhverfið, m.a. með bættum innkaupum, endurvinnslu og endurnýtingu.

Nemendur FoldaskólaInga María Árnadóttir, Anna Margrét Sigurðardóttir, Anna Gréta Hafsteinsdóttir, Unnur Helga Briem og Jóhanna Edwald, nemendur í stafrænu ljósmyndavali 10. bekkjar í Foldaskóla hönnuðu veggspjöld til að vekja fólk til umhugsunar um umhverfið.

Nemendur úr LýsuhólsskólaNemendur Lýsuhólsskóla fengur viðurkenninguna fyrir vinnu að gerð göngustígs í Kambsskarði og fyrir gerð Stubbalækjarvirkjunar. Markmið þess verkefnis var nýting endurnýjanlegrar orku í umhverfi skólans og lífræn ræktun í gróðurhúsi og matjurtagarði.  



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum