Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra opnaði gestastofu í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra fékk góða aðstoð við að opna Gljúfrastofu formlega.
Við opnun Gljúfrastofu

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra opnaði í gær gestastofu fyrir þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum þar sem hægt verður að taka á móti ferðamönnum og veita upplýsingar og fræðslu um þjóðgarðinn. Gestastofan er staðsett í Ásbyrgi og nefnist Gljúfrastofa. Hluti af ræðu sem umhverfisráðherra flutti við þetta tilefni fylgir hér á eftir:

,,Aðstaðan hér í Gljúfrastofu til kynningar á náttúrufari þjóðgarðsins og myndun og þróununarsögu hinna stórkostlegu gljúfra Jökulsár á Fjöllum gjörbreytir möguleikum og aðstöðu landvarða til þess að taka á móti, upplýsa og fræða gesti þjógarðsinns, bæði ferðamenn og heimamenn um svæðið og verndun þess. Þetta er einn mikilvægasti þátturinn í starfi landvarða og rekstri þjóðgarða enda er markmið fræðslu og upplýsingagjafar að auka þekkingu í þeirri vissu að þekking leiði til vaxandi virðingar fyrir náttúrunni og um leið til aukinnar verndunar. Því mun gestastofan tvímælalaust verða til þess að auka enn frekar gildi þjóðgarðsins og vonandi leiða til enn frekari fjölgunar gesta í þjóðgarðinn.

Alþingi samþykkti nýverið lög um stofnun Vatnajökulsþjógarðs sem fela í sér sameiningu þjóðgarðanna Jökulsárgljúfra og Skaftafells og friðlýsingu alls Vatnajökuls, umfangsmikilla svæða umhvefis jökullinn og norður með Jökulsá á fjöllum, allt til strandar hér í Öxarfirði, um 13.000 ferkílómetra svæðis. Með því móti er leitast við að sameina í einum þjóðgarði Vatnajökul og helstu áhrifasvæði hans. Þetta er stærsta og metnaðarfyllsta verkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi til verndunar náttúru landsins, útivistar og fræðslu um náttúruna. Þetta verður jafnframt lang stærsti þjóðgarður í Evrópu.

Vatnajökulsþjóðgarður mun á ýmsan hátt brjóta blað í rekstri þjóðgarða hér á landi. Ekki aðeins að hann verði eins og áður sagði lang stærsti þjóðgarður landsins, þá er gert ráð fyrir að á ákveðnum svæðum í þjóðgarðinum haldist hefðbundnar nytjar svo sem búfjárbeit og veiðar með svipuðu sniði og verið hefur. Þá er reiknað með því að töluvert af landi innan þjóðgarðsins verði í einkaeign bundið samningum við viðkomandi landeigendur. Þá verður stjórnfyrirkomulag garðsins með öðrum hætti en tíðkast hefur hingað til þannig að heimamenn munu fá allnokkra aðild að stjórn og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs. Þá er gert ráð fyrir að stjórn þjóðgarðsins muni gera samninga við einkaaðila um ýmsa þjónustu fyrir þjóðgarðinn.

Lögin um Vatnajökulsþjóðgarð taka gildi 1. maí nk. og þá vænti ég þess að hægt verði að skipa fljótlega svæðisráð og stjórn þjóðgarðsins sem vinna mun með ráðuneytinu að undirbúningi formlegrar stofnunar þjóðgarðsins. Stærsta verkefnið þar áður en að stofnun þjóðgarðsins kemur eru samningar við landeigendur um upphafsmörk þjóðgarðsins. Viðræður um þau mál hófust (við landeigendur) á sl. ári og verður þeim nú fram haldið. Umhverfisráðuneytið, ásamt stjórn þjóðgarðsins og svæðisráðum, mun á næstu vikum hefja undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, en áætlað er að uppbygging þjónustunets og starfsstöðva hans taki um fimm ár. Gljúfrastofa verður í framtíðinni ein af sex gestastofum þjóðgarðsins, en auk hennar verða tvær gestastofur og jafnmargir þjóðgarðsverðir í þessu kjördæmi þ.e.a.s. við Mývatn og Skriðuklaustur. Það er von mín að Vatnajökulsþjóðgarður verði til þess að styrkja byggð og fjölga atvinnutækifærum í tengslum við ferðaþjónustu og afleiddum störfum í nágrenni þjóðgarðsins.

Það hefur verið vaxandi áhugi á náttúruvernd hér á landi og um heim allan undanfarið og mat á áhrifum af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á ferðaþjónustu bendir til þess að búast megi við verulegri fjölgun ferðamanna til landsins við stofnun þjóðgarðsins og enn meiri fjölgun verði þjóðgarðurinn samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO.

Það má segja að opnun Gljúfrastofu í dag sé fyrsta skrefið í undirbúningi að stofnun og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs eftir að lögin um þjóðgarðinn voru samþykkt. Það munu þó ekki verða teljandi breytingar á rekstri þjóðgarðsins Jökulsárgljúfra á þessu ári enda verður formleg stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs ekki fyrr en með birtingu og gildistöku reglugerðar eins og ég nefndi áðan.

Að lokum við ég óska forstjóra Umhverfisstofnunar, þjóðgarðsverði og starfsmönnum þjóðgarðsins og stofnunarinnar innilega til hamingju með Gljúfrastofu. Ennfremur óska ég sveitarstjórn og íbúum héraðsins til hamingju með þennan áfanga og um leið vil ég þakka þeim fyrir stuðninginn við þennan mikilvæga áfanga í starfsemi þjóðgarðsins".



Ellý K. Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir þjóðgarðsvörður.
Gljufrastofa1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum