Hoppa yfir valmynd
15. mars 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áhyggjur vegna enduropnunar gallaðrar stöðvar í Sellafield

THORP hluti kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield.
Sellafield

Bresk stjórnvöld hafa sent frá sér skýrslu um atvikið sem átti sér stað þegar 83.000 lítrar af geislavirkum vökva láku úr skemmdu röri í svonefndum THORP hluta kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield. Upp komst um lekann í apríl árið 2005 og var stöðinni lokað í kjölfarið.

Í skýrslunni kemur fram að orsök lekans megi rekja til hönnunargalla sem leiddi til þess að aðrennslispípa fór í sundur. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að starfsmenn Sellafield hefðu átt að greina lekann mun fyrr en raun varð á. Lekans varð ekki vart fyrr en átta mánuðum eftir að aðrennslispípan skemmdist. Þetta stafaði annars vegar af bilun í mælitækjum og hins vegar af því að eftiliti í THORP hluta stöðvarinnar var mjög ábótavant. Í skýrslunni segir að ástæður lekans séu gallað eftirlitskerfi og slælegir stjórnunarhættir.

British Nuclear Group var í framhaldi af þessu dæmt til að greiða 500.000 sterlingspund, eða sem samsvarar 63 milljónum íslenskra króna, í sekt vegna lekans. Það var Breska heilbrigðis- og öryggisstofnunin sem kærði British Nuclear Group fyrir atvikið en fyrirtækið rekur kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield sem er í eigu breskra stjórnvalda.

Í janúar á þessu ári veitti síðan Breska heilbrigðis- og öryggisstofnunin eigendum kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield leyfi til að hefja að nýju starfsemi í THORP hluta stöðvarinnar.

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sendi í kjölfar þeirrar ákvörðunar bréf til David MIlliband, umhverfisráðherra Breta, þar sem hún lýsti óánægju sinni með að Breska heilbrigðis- og öryggisstofnunin hafi veitt eigendum stöðvarinnar leyfi til að hefja starfsemina að nýju. Í bréfinu er undirstrikað að lekinn í apríl 2005 hafi verið mjög alvarlegur og að hann hafi vakið spurningar um öryggi stöðvarinnar. Þess vegna óskaði ráðherra eftir skriflegum upplýsingum um forsendur þess að leyfið er veitt að nýju og hvaða skilyrði hafa verið sett um öryggis- og mengunarvarnir í tengslum við vinnsluna.

Í svari umhverfisráðherra Breta lýsir hann skilningi á áhyggjum íslenskra stjórnvalda en segir jafnframt að tillögur Bresku heilbrigðis- og öryggisstofnunarinnar um úrbætur á öryggis-og eftirlitskerfi í THORP hluta Sellafield eigi að tryggja öryggi áframhaldandi vinnslu. Hann vísar í því efni til úttektar heilbrigðis- og öryggisstofnunarinnar þar sem meðal annars er fjallað um ástæður lekans og þær úrbætur sem koma eiga í veg fyrir að atvik sem þetta geti endurtekið sig.

Umhverfisráðherra hefur ráðfært sig við m.a. umhverfisráðherra Noregs og Írlands vegna málsins, en þessi ríki og raunar Norðurlöndin öll hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna endurvinnslunnar í Sellafield, losunar geislavirkra efna í hafið og öryggisvandamála sem komið hafa þar upp. Íslensk stjórnvöld munu áfram fylgjast grannt með málefnum tengdum Sellafield og þá ekki síst fyrirhugaðri enduropnun THORP hluta stöðvarinnar seinna á þessu ári.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum