Hoppa yfir valmynd
7. janúar 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðuneyti tekur við yfirstjórn brunamála; Ný skipulags- og byggingarlög ganga í gildi

Um síðustu áramót tók umhverfisráðuneytið við yfirstjórn brunamála af félagsmálaráðuneytinu. Með breytingum á á lögum um brunavarnir og brunamál, sem samþykkt voru á Alþingi á sl. ári, var ákveðið að flytja yfirstjórn brunamála til umhverfisráðuneytisins. Með þessum breytingum er yfirstjórn byggingarmála og brunamála á einni hendi.

Þá gengu ný skipulags- og byggingarlög í gildi um áramótin. Með þeim verða þær breytingar m.a. að skipulagsstjórn er lögð niður og Skipulag ríkisins heitir hér eftir Skipulagsstofnun.

Skipulags- og byggingarlögin (nr. 73/1997, ásamt br. nr. 135/1997) taka við af skipulagslögum frá 1964 og byggingarlögum frá 1978. Með þeim er meðferð skipulags- og byggingarmála einfölduð og frumkvæði sveitarfélaga aukið. Skilgreind eru mismunandi stig skipulagsáætlana: Landsskipulag, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag.

Hlutverk Skipulagsstofnunar felst m.a. í eftirliti með framkvæmd laganna, ráðgjöf til sveitarstjórna og ríkisvaldsins um skipulags- og byggingarmál og að láta í té umsagnir um ágreiningsmál. Verkefni skipulagsstjórnar ríkisins eru að hluta flutt til Skipulagsstofnunar og að hluta til sveitarfélaganna. Þannig er frumkvæði aðal- og deiliskipulags flutt til sveitarfélaga frá skipulagsstjórn. Sett verður á stofn sérstök úrskurðarnefnd sem ætlað er að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum og kærum í stað þess að umhverfisráðherra úrskurði um þau.

Fréttatilkynning nr. 1/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum