Hoppa yfir valmynd
22. október 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnunni Skógar - heimsins græna gull

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði gesti á ráðstefnunni Skógar - heimsins græna gull sem haldin var í Hörpu 22. október 2011 með eftirfarandi orðum.

Fundarstjóri, kæru ráðstefnugestir.

Það er mér sönn ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag og bjóða velkomin til þessarar ráðstefnu. Sérstaklega þeim fyrirlesurum sem eru komnir hingað um langan veg til að miðla af reynslu sinni.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti árið 2011 “Alþjóðlegt ár skóga” og hafa fjöldamargir viðburðir verið skipulagðir víða um heim að því tilefni. Ráðstefnan “Skógar – heimsins græna gull” er því hluti af stærra samhengi þess að taka skóga og skógarmál til sérstakrar umfjöllunar. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim sem hafa staðið að og séð um kynningu á Alþjóðlegu ári skóga hér fyrir þeirra framlag og atorku.

Yfirskrift Alþjóðlegs árs skóga er “skógar fyrir fólk”. Þetta á vel við enda eru skógar afar mikilvægir fyrir samfélagið. Sá hagur sem fólk hefur af skógum er og mun víðtækari en einungis þau efnislegu gæði sem skógarnir veita. Þar má sérstaklega nefna þá mikilvægu þjónustu sem skógarvistkerfi veita til að sporna við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, við að miðla vatni, vernda lífríki, binda jarðveg og skapa skjól. Á alla þessa þætti var bent sem rökstuðning fyrir mikilvægi skóga, þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að tileinka árið 2011 skógum. Því fer hins vegar fjarri að alltaf sé tekið tillit til þessara fjölbreyttu þátta í umgengni við skóga. Því leggja Sameinuðu þjóðirnar áherslu á mikilvægi sjálfbærrar nýtingar skóga, þar sem þessi fjölþættu markmið eru höfð að leiðarljósi.

Þetta er mikilvæg umræða fyrir okkur á Íslandi. Ísland er um stundir eitt skóglausasta land Evrópu. Það hefur þó alls ekki alltaf verið svo. Á Íslandi hefur orðið mikil gróður- og jarðvegseyðing, en talið er að um 95% þeirra skóga sem hér uxu við landnám fyrir um 1100 árum hafi eyðst. Þetta gerðist í kjölfar þess mikla inngrips sem búseta manna olli á annars áður óbyggðri eyju, eyju í norðurhöfum með óblíðum náttúruöflum. Sem betur fer hefur byggst hér upp öflugt starf til að skapa viðhorfsbreytingu í samfélaginu, til að vinna gegn eyðingunni og snúa við þessum vítahring. Þannig hefur orðið þjóðarvakning hér á landi – hér hefur náðst að græða landið og rækta nýja skóga með miklum árangri. Í skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um stöðu skógarauðlinda heimsins, sem kom út á síðasta ári, er einmitt sýnt að Ísland hafi verið það land heims sem jók hlutfallsleg mest við skógarþekju sína, eða um 5% á árunum 2000-2010. Það er ánægjulegt að vita af þessu staðfesta heimsmeti.

Hins vegar er afar mikið óunnið á þessum vettvangi. Skógar þekja einungis liðlega 1% landsins en þöktu um fjórðung landsins við landnám. Það er því forgangsmál að vernda, endurheimta og auka útbreiðslu náttúruskóga landsins. Jafnframt er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu mikil tækifæri eru hér til að rækta skóga til fjölþættra nytja, bæði til að framleiða hverskonar viðarafurða, skapa vettvang fyrir útivist og bætta lýðheilsu – auk þess sem skógrækt er mikilvægur hluti aðgerðaáætlunar Íslands í loftslagsmálum. Umræðan snýst ekki lengur um það hvort hér sé hægt að endurheimta og rækta nýja skóga, heldur hvar það skuli gert og hvernig eigi að standa af því.

Góðir gestir,

Í umræðu um eyðingu skóga landsins í gengum árin hefur oft verið skírskotað til þess að okkur beri að “greiða skuldina við landið”. Það er auðvitað rétt, okkur ber að hugsa um komandi kynslóðir og reyna að skila landinu til þeirra í betra ástandi en við tókum við því. Sú “skuld” sem vísað er til hlóðst upp þegar þjóðin var í þeim aðstæðum að þurfta að ganga á gæði landsins til lífsbjargar. Það þarf ekki að fara lengra aftur en til ársins 1917 til að finna auglýsingar í dagblöðum frá skógarvörðum um að þeir séu væntanlegir í bæinn með eldiviðarhlöss ofan úr Vatnaskógi, sem þá voru væntanlega þær skógarleifar sem voru næstar þéttbýlinu hér á suðvesturhorninu.

Það er í raun ekki fyrr en í kringum 1990 sem það verður viðsnúningur á þekju skóga, bæði með viðhorfsbreytingu, minnkandi beitarálagi, aukinni ræktun og hlýnun. Því miður hafa aðrar skuldir verið fyrirferðarmeiri undanfarin 3 ár, skuldir sem hlóðust upp í samfélaginu eftir kollsteypuna í kringum efnahagshrunið. Greiðslan á “skuldinni við landið,” sem og mörg önnur mikilvæg samfélagsverkefni, hefur þannig færst aftar vegna fjárhagsstöðu hins opinbera – sem er miður. Vonandi er hér að verða viðsnúningur í samfélaginu eftir hreinsunarstarfið undanfarin 3 ár.

Kæru gestir,

Nafn þessarar ráðstefnu er Skógar - heimsins græna gull. Með henni er ætlunin að beina sjónum að skógarmálum bæði frá hinu stóra alþjóðlega samhengi, heyra áhugaverð dæmi frá nágrannalöndum okkar og tengja við skógræktarmálefni Íslands. Þetta er spennandi og metnaðarfull dagskrá og verða hér flutt mörg áhugaverð erindi sem ég vona að skapi efnismiklar umræður.

Það gerðist núna fyrr í haust að einhver þekktasta baráttukona heims á sviði skógræktar – og reyndar umhverfismála í víðu samhengi – féll frá. Það var kenýanska baráttukonan og nóbelsverðlaunahafinn Wangari Maathai. Barátta hennar fyrir bættu umhverfi, réttindum kvenna og samfélagslegum jöfnuði hafði mikil áhrif. Til dæmis er talið að grænbeltishreyfing hennar hafi komið því til leiðar að konur í Kenya hafi gróðursett um 40 milljón tré. Ég veit að það var nokkrum sinnum reynt að fá hana hingað til lands, en án árangurs. Úr því verður ekki úr þessu og hún mun ekki gróðursetja hér tré eins og hún gerði hvar sem hún kom, sem er auðvitað miður. Ég hef hinsvegar óskað eftir því við Skógræktarfélag Íslands að við fyrsta hentuga tækifæri verði gróðursett birkitré í Vinarskógi á Þingvöllum í hennar nafni og að á því verði áletrunin:

“Til minningar um baráttukonuna Wangari Maathai á Alþjóðlegu ári skóga.“

Og síðan það slagorð sem hún notaði

“Þegar við gróðursetjum tré, sáum við fræjum friðar og fræjum vonar”

“When we plant trees, we plant the seeds of peace and seeds of hope”.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum sem hafið unnið að undirbúningi þessarar ráðstefnu og ykkur fyrirlesurum sem eru komin hingað til lands að flytja hér erindi og ræða við íslenskt skógræktarfólk.

Ég óska ykkur góðs gengis hér í dag og árangursríks fundar

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum