Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun Surtseyjasýningar í Eldheimum

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við opnun Surtseyjarsýningarinnar í Eldheimum 14. nóvember 2014.

 

Bæjarstjóri, Vestmannaeyingar, góðir gestir

Til hamingju með daginn. Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag á 51 árs afmæli Surtseyjar í tilefni af opnun gestastofu Surtseyjar hér í þessari glæsilegu sýningar-aðstöðu Eldheima.

Ég óska Umhverfisstofnun til hamingju með uppsetningu Surtseyjasýningarinnar hér í Eldheimum og Vestmannaeyingum með þessa samtengingu.

Surtseyjasýningin sem hér er uppsett var fyrst sett upp af Náttúrufræðistofnun Íslands í Þjóðmenningarhúsinu árið 2007 í tengslum við tilnefningu Surtseyjar á heimsminjalistann og síðan flutt í Surtseyjarstofu hér í Eyjum. 
Flutningur Surtseyjastofu hingað undirstrikar tengslin milli eldsumbrotanna sem mynduðu Surtsey fyrir hálfri öld og eldsumbrotanna í Heimaey fyrir um 40 árum og minnir okkur á sameiginlegan uppruna allra eyjanna, skerjanna og dranganna í Vestmannaeyja-klasanum. Í hugum okkar Íslendinga er Surtsey einstök, ekki síst þeirra sem fylgdust með Surtseyjargosinu, myndun eyjarinnar og þróun. Eftir gosið var Surtsey gerð að lokuðu nátturverndarsvæði, sem gerði vísindaheiminum mögulegt að fylgjast með hvernig nýtt líf og vistkerfi verður til. 

Fjarlægð Surtseyjar frá gestastofunni gerir það enn mikilvægara og áhrifaríkara að tengja náttúru, þróun og myndunarsögu eyjanna saman undir einu þaki. Í raun mætti tengja umfjöllun um náttúru og þróun Surtseyjar betur við náttúru annarra eyja svæðisins og nýta Heimaey og eyjarnar hér í kring til þess að sýna hvert þróun lífríkis og jarðfræði Surtseyjar leiðir og hvernig eyjan mun líta út í framtíðinni.

Surtsey var samþykkt á Heimsminjalista samnings Sameinuðu þjóðanna um verndun menningar- og náttúruminja heimsins árið 2008 vegna friðunar eyjarinnar í upphafi, þróunarsögu lífs og lands og sem náttúrulegri tilraunastofu í landnámi lífvera og þróun náttúru á líflausu landi.  Með því að vera á heimsminjalistanum er staðfest að eyjan er einstök í heiminum að þessu leiti og því er forsenda þess að eyjan verði áfram á heimsminjalistanum að aðgangur að henni verði takmarkaður við vísindarannsóknir. Takmörkun á aðgangi skuldbindur okkur um leið til þess að gefa almenningi og ferðamönnum sem til Eyja koma greinagóðar upplýsingar og kynningu á þróun Surtseyjar og hvernig lífverur nema land og breiðast út um eyjuna. Vísindamenn hafa sett upp líkan um það hvernig eyjan og lífríkið muni þróast og það verður spennandi fyrir vísindamenn framtíðarinnar að fylgjast með þróuninni og sannreyna hvort þessar spár standist eða hvort þróunin verður með öðrum hætti.

Það hefur verið til umfjöllunar um hríð að friðlýsa úteyjar Vestmannaeyja og hluta af Heimaey.  Góð sátt hefur verið um þessar tillögur og vona ég að innan tíðar verði hægt að tilkynna sameiginlega um fyrirkomulag þess

Góðir gestir;

Það er ávallt ánægjulegt að sækja Vestmannaeyjar heim. Hér er öflugt samfélag, sem hefur þróast í nánu sambýli við náttúruna og þeim gæðum sem hún býr yfir.

Það fer afar vel á því að Surtseyjarstofa sé nú orðinn hluti af Eldheimum sem lýsir atburðarrás gossins á áhrifamikinn hátt. Hér er orðin mikilvægur vettvangur fyrir vaxandi ferðaþjónustu hér í Vestmannaeyjum og fyrirmyndar vettvangur til kynningar og upplýsinga um náttúru og samfélag hér í Vestmannaeyjum. Ég óska ykkur aftur til hamingju með þetta frumkvæði og framtak.   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum