Hoppa yfir valmynd
26. september 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Umhverfismatsdeginum

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á málþingi sem haldið var í Hörpu 26. september 2014 í tilefni af því að 20 ár eru liðin síðan lög um mat á umhverfisáhrifum komu til framkvæmda.


Góðir gestir,
Það er mér sönn ánægja að ávarpa gesti Umhverfismatsdagsins 2014, en þetta er fyrsta málþingið sem Skipulagsstofnun stendur að undir þeirri yfirskrift og er deginum ætlað að verða árviss atburður héðan í frá. 

Á þessu ári eru 20 ár liðin síðan lög um mat á umhverfisáhrifum komu til framkvæmda, en með þeirri lagasetningu var stigið mikilvægt skref í umhverfismálum hér á landi. 

Gildistaka laganna fól í sér breytta nálgun við undirbúning stærri framkvæmda, því auk venjubundins undirbúnings átti samhliða að meta umhverfisáhrif framkvæmdanna á kerfisbundinn hátt. Áhrif framkvæmda voru greind, vægi þeirra metið og lagt til hvernig brugðist skyldi við þeim.  

Jafnframt var opnað á nýjan vettvang fyrir samræðu á milli aðila úr ólíkum áttum og þeim gefið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri til að undirbyggja betur ákvarðanir um framkvæmdir.  

Innleiðing mats á umhverfisáhrifum hefur falið í sér möguleika á margvíslegum árangri í umhverfismálum. Það hefur gefið okkur kost á samráðsvettvangi framkvæmdaraðila og almennings sem er til þess fallið að auka gagnkvæman skilning og sátt um einstakar ákvarðanir um framkvæmdir og  útfærslu þeirra. Í heild sinni má segja að mat á umhverfisáhrifum hafi verið mikilvægt lóð á vogarskálar sjálfbærrar þróunar.

Þegar lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett var Skipulagsstofnun falið að fóstra þetta nýja verkefni. 

Stofnuninni var ætlað að leiðbeina um framfylgd laganna, fylgja eftir ákvæðum þeirra og sinna afgreiðslu einstakra mála. Ljóst var að um var að ræða töluvert brautryðjenda-starf. Meðal annars að fræða og leiðbeina framkvæmdaraðilum þannig að mat á umhverfisáhrifum yrði smám saman séð sem jafn sjálfsagður og nauðsynlegur hlekkur í undirbúningi framkvæmda og aðrar hönnunarforsendur þeirra. Þá var ekki síður mikilvægt að kynna almenningi það veigamikla hlutverk sem honum var fengið í matsferlinu.

Eflaust eru skiptar skoðanir um það hvernig hafi til tekist á þessum tuttugu árum. Sumir beina kannski sjónum að umfangsmiklum skýrslum sem ætla megi að fáir lesi, að fámennum kynningarfundum með misgóðu kaffi og að flókinni og tímafrekri stjórnsýslu. Jafnframt telja kannski sumir að framkvæmdaraðilar nálgist matið stundum frekar af skyldurækni en til að nýta afrakstur þess og að umhverfismatsumræðan í heild hafi tilhneigingu til að einkennast fremur af átökum en uppbyggilegu samtali.  

En er þetta rétt lýsing á ástandinu? Sé horft á heildarmyndina tel ég að mati á umhverfisáhrifum hafi hér verið komið í nokkuð farsælan farveg.  Hins vegar er mikilvægt að menn dragi lærdóm af þeirri reynslu sem safnast hefur á þessum tuttugu árum og séu á hverjum tíma vakandi fyrir því sem betur má fara í löggjöfinni og framkvæmd hennar, með tilliti til þess síbreytilega umhverfis sem við lifum í.

Lög um mat á umhverfisáhrifum byggja á tilskipun Evrópusambandsins. Síðastliðið vor var samþykkt endurskoðun á tilskipuninni. Sú tilskipun felur í sér nokkrar breytingar, sem felast að stórum hluta í að árétta verklag af ýmsu tagi. Verklag sem nú þegar er að miklum hluta kveðið á um í okkar löggjöf um mat á umhverfisáhrifum.  Það er þó viðbúið að hin nýja tilskipun leiði til þess að ráðast verði í einhverjar breytingar á löggjöfinni. 

Auk þessa hefur í nýlegri úttekt OECD á umhverfismálum á Íslandi verið bent á þætti sem þörf sé á að bæta við mat á umhverfis-áhrifum og má þar helst nefna þætti sem varða tímafresti og ákveðna óskilvirkni í umsagnarferlinu hér á landi. Einnig hefur Skipulagsstofnun bent á að tilefni sé til þess  að fara heildstætt yfir reynslu af löggjöfinni. 

Má þá helst nefna hvernig hægt er að einfalda verkferla, bæta skilvirkni og ramma betur inn tímalengd. 

Því er ljóst að þörf á endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum er nokkuð sem þarfnast nánari skoðunar af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þá ber einnig að nefna að Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp um breytingar á lögunum sem varða fyrst og fremst hvaða framkvæmdir skuli vera tilkynningarskyldar.

Verði niðurstaðan sú að ráðast í endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum er mikilvægt að huga að möguleikum á að auka skilvirkni og einfalda regluverkið, en slíkt má þó aldrei leiða til þess að dregið verði úr kröfum um að tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða við framkvæmdaundirbúning. 

Undirbúningur stórframkvæmda krefst margra handtaka og á hverjum tíma rétt að skoða hvar og hvernig má vinna með skilvirkari hætti. Með góðri yfirsýn og skilningi á öllum verkþáttum undirbúningsvinnunnar getur framkvæmdaraðili sjálfur komið auga á hvar vinna má samhliða að hinum ýmsum þáttum hönnunar og umhverfismats og þannig hugsanlega stytt undirbúningstíma framkvæmdarinnar og dregið úr kostnaði.  Jafnframt þarf stjórnsýslan að huga að því með hvaða hætti vinna má enn skilvirkar og samþætta ákveðna þætti innan kerfisins.  

Eins og ég sagði hér í upphafi þá varð með tilkomu mats á umhverfisáhrifum hér á landi til formlegur vettvangur fyrir aðila úr ólíkum áttum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við undirbúning  stærri framkvæmda.  

Við þekkjum öll hvernig einstakar stórframkvæmdir hafa orðið að deilumálum og umhverfismatið því miður á stundum frekar virst verða vettvangur átaka heldur en slíks samtals. Í þessu tilliti snýst málið ekki síður að okkur sjálfum, sem öll gegnum hlutverki í því lýðræðislega ferli sem mat á umhverfisáhrifum felur í sér; hvort sem það er í hlutverki framkvæmdaraðila, stjórnvalda eða  almennings. Við eigum að stefna að því að geta mæst á þessum vettvangi sem mat á umhverfisáhrifum felur í sér og geta sýnt hvert öðru traust og skilning – svo um verði að ræða málefnalega umræðu sem leiðir af sér ábata fyrir umhverfi og samfélag.

Ég óska ykkur góðs Umhverfismatsdags 2014 og vænti þess að þessi árlegi viðburður héðan í frá verði okkur vettvangur og hvatning til að þróa og bæta enn frekar það mikilvæga tæki sem mat á umhverfisáhrifum er.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum