Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við afhendingu landgræðsluverðlauna 2013

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra sagði eftirtalin orð við afhendingu landgræðsluverðlaunana 29. nóvember 2013.


Landgræðslustjóri, ágætu handhafar landgræðsluverðlaunanna, góðir gestir,


Það er mér mikið ánægjuefni að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í Gunnarsholti við afhendingu landgræðsluverðlaunanna. Ég vil nota tækifærið og óska verðlaunahöfunum til hamingju. Þið eruð sannarlega verðugir fulltrúar þessa glæsilegu verðlauna.  Landgræðsluverðlaunin eru bæði viðurkenning fyrir frábært starf í þágu landgræðslu og hvatning til að halda áfram á sömu braut. Verðlaunin hafa líka hvetjandi áhrif á okkur hin, og þau vekja jafnframt athygli á viðfangsefnum landgræðslustarfsins. Landgræðsla er margþætt verkefni og ýmsar leiðir færar. Landgræðsluverðlaunin eru sannarlega ein leið og góð leið til að hvetja fólk til góðra verka. 

Við erum stödd hér í Sagnagarði  - fræðslumiðstöð landgræðslunnar - sem ber vitni sögu landgræðslu á Íslandi, sögu um ótrúlega elju og eldmóð þeirra sem hafa starfað að vernd jarðvegs og gróðurs á Íslandi í meira en 100 ár. Þetta er saga sem við megum ekki gleyma heldur læra af henni – stór landsvæði voru örfoka melar og hefta þurfti sandfok. Nýta þarf landið á sjálfbæran hátt og að leita leiða til að laga og græða það sem aflaga kann að fara. 

Við mannfólkið erum auðvitað ekki fullkomin og víða sér þess dæmi að við höfum ekki þekkt okkar takmörk í umgengni við landið, og þekkjum kannski enn ekki nægjanlega vel. Aukin þekking og reynsla hefur hins vegar með tímanum gert okkur kleift að takast betur á við þessi mál, að laga land sem hefur skemmst og endurheimta með þolinmæði vistkerfi sem hafa glatast. Þolinmæði er kannski eitt það mikilvægasta sem maður lærir og þarf að læra í landgræðslustarfinu. Vissulega getum við flýtt fyrir bata landsins, en eins og sjúklingur þá tekur bati tíma og oft þarf landið á hvíld að halda til að ná aftur heilsu. Ég hef einmitt heyrt ykkur hér hjá Landgræðslunni kalla ykkur „land-lækna“ sem er ágæt myndlíking yfir það sem þið fáist við!

Góðir gestir;
Landgræðslustarfið á Íslandi er með miklum blóma. Mikill fjöldi fólks kemur að því um allt land. Landgræðslan hvetur fólk áfram, miðlar og aflar þekkingar. Samstarf við bændur hefur skilað miklum árangri í uppgræðslu og hvernig það samstarf hefur verið skipulagt í gegnum „Bændur græða landið verkefnið“ er sennilega eitthvert mesta heillaspor sem stigið hefur verið í samskiptum bænda og Landgræðslunnar, eins og þeir bændur á Bíldsfelli eru vitnisburður um. Þau tengsl og það traust sem þetta samstarf hefur skapað er verðmætt og þarf að viðhalda og efla. Reynsla og þekking bænda á landinu og vinnubrögðum við landgræðslu eru ómetanleg og með því að styðja við þeirra uppgræðslustarf hagnast allir. 

Sveitarfélög eins og Hafnarfjarðarbær eru einnig lykilaðili í landgræðslustarfi. Þau geta, ekki síst í gegnum sitt skipulagsvald, sett landgræðslu á dagskrá í sínu sveitarfélagi. Samskipti Landgræðslu ríkisins og sveitarfélaga eru afar mikilvæg. Landgræðslan getur þannig miðlað þekkingu og veitt faglegan stuðning við stefnumótun og framkvæmdir sveitarfélaga á sviði gróður- og jarðvegsverndar. 

Einnig er mikilvægt að fylgjast með nýjum áskorunum. Við megum ekki gleyma því nýting lands breytist með tímanum og í dag stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum á þessu sviði. Stóraukinn straumur ferðamanna um landið skapar nýtt og áður óþekkt álag á landið. Þar þurfum við að bregðast við. Þar er samstarf sveitarfélaga og Landgræðslunnar mikilvægt. 

Góðir gestir, 
Ég vil aftur óska verðlaunahöfunum í dag til hamingju. Þið eruð verðugir handhafar landgræðsluverðlaunanna og eruð okkur hinum hvatning til að feta sömu braut í þágu landsins okkar. Megi sem flestir feta ykkar slóð. 
Ég vil jafnframt að endingu þakka Landgræðslu ríkisins gott boð hingað í Gunnarsholt. Hér er góður andi og sóknarhugur, sem gott er að finna. Þið vinnið gott starf, fólkinu og landinu okkar til heilla. Megi það halda áfram að vaxa og dafna,
Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum