Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands

Lovísa Ásbjörnsdóttir  verkefnisstjóri Náttúruvefsjár NÍ, Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra og Jón Gunnar Ottósson forstjóri NÍ.
Af ársfundi Náttúrufræðstofunar

Ágætu ársfundargestir.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag í tilefni ársfundar Náttúrufræðistofnunar Íslands.  Stofnunin gegnir lykilhlutverki á sviði náttúrufræðirannsókna hér á landi. Starfssvið hennar er margbreytilegt og fer vaxandi. Vöxtur starfseminnar tengist m.a. náttúrufræðirannsóknum í tengslum við líffræðilega fjölbreytni og þeim áformum um náttúruvernd sem nú er unnið að, bæði Náttúruverndaráætlun, endurskoðun hennar og Vatnajökulsþjóðgarði.

Náttúrufræðistofnun hefur átt við fjárhagslegan vanda að stríða undanfarin ár. Í tilefni þess varð að samkomulagi milli ráðuneytisins og stofnunarinnar að fram færi úttekt á fjárhagsgrunni hennar með hliðsjón af þeim verkefnum sem hún sinnir. Fór sú úttekt fram á vegum Ríkisendurskoðunar sem skilaði niðurstöðum í nóvember 2004.

Á grundvelli þeirra niðurstaðna var ákveðið að ekki yrði gripið til frekari uppsagna eða niðurskurðar verkefna á vegum stofnunarinnar. Við fjárlagagerð fyrir þetta ár var fjárhagsgrunnur stofnunarinnar styrktur verulega. Jafnframt var farið í endurskoðun á stjórnskipulagi stofnunarinnar í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar með því að fækka stjórnendum og samræma stjórn og tók breytt stjórnskipulag gildi í lok síðasta árs. Með þessum aðgerðum er það von mín að starfsemi stofnunarinnar sé komin á réttan kjöl og bjart sé framundan í þessum efnum.

Húsnæðismál Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa einnig verið til umræðu. Vel er búið að starfseminni á Akureyri en huga þarf að aðstöðunni í Reykjavík ekki síst rannsóknastarfseminni sem og vísindasöfnum stofnunarinnar. Ég tel að þar sé um að ræða mál sem brýnt er að leysa í náinni framtíð.

Hinn 27. janúar sl. undirritaði ég nýja friðlýsingu fyrir friðland í Surtsey sem felur í sér mikla stækkun þess eða úr 1,4 ferkílómetrum í 65,6 ferkílómetra. Innan hins nýja svæðis eru neðansjávargígarnir Jólnir, Syrtlingur og Surtla sem og hafsvæðið umhverfis eyjuna. Þessi stækkun friðlandsins tengist samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í desember um að tilnefna Surtsey á Heimsminjaskrá UNESCO en beiðni þar að lútandi er til umfjöllunar hjá Heimsminjaskrá. Við gerðum okkur vonir um að hægt yrði að ganga frá málinu á þessu og næsta ári en vegna smávægilegra tæknilegra örðugleika verður það að bíða um eitt ár. Samkvæmt nýju reglugerðinni verður það hlutverk Náttúrufræðistofnunar að stunda rannsóknir og annast reglubundna vöktun náttúrufars í friðlandinu í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Surtseyjarfélagið. Ég vil nota tækifærið hér og þakka starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar fyrir frábærlega vel unnin störf við friðlýsinguna en megin vinnan lenti á stofnuninni. Á vegum stofnunarinnar var nánast unnið kraftaverk við að útbúa gögn á þeim stutta tíma sem var til stefnu og gefa út vandaða skýrslu. Skýrslan hefur vakið athygli fyrir það hversu vönduð hún er og ber höfundunum fagurt vitni.

Umhverfisráðuneytið hefur ásamt stofnunum ráðuneytisins Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun unnið ötullega að náttúruverndarmálum að undanförnu. Þar vil ég nefna náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004 til og með 2008 og stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem unnið er að á vegum sérstakrar nefndar sem starfar á vegum ráðuneytisins. Ætlunin er að Vatnajökulsþjóðgarður taki yfir þjóðgarðana í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum og jökulinn sjálfan og ýmis ný svæði þar á milli og væntanlega til sjávar í norðri og suðri. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð í haust. Náttúrufræðistofnun hefur komið að þessu verkefni og gefið út skýrslur annars vegar um náttúrufar og náttúruminjar við suð-austur hluta Vatnajökuls og hins vegar um náttúrufar og verndargildi náttúrufyrirbæra norðan Vatnajökuls. Sem stendur vinnur stofnunin að sams konar verkefni fyrir svæðið suð-vestan jökulsins. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki stofnunarinnar fyrir góða vinnu í tengslum við þetta verkefni.

Eins og kunnugt er urðu miklir sinueldar á Mýrum í upphafi mánaðarins en þar er gróskumikill votlendisgróður. Ég hef falið Náttúrufræðistofnun að rannsaka áhrif Mýraelda á lífríkið en þessir eldar eru með umfangsmestu sinueldum sem orðið hafa hér á landi. Viðbúið er að gróðurbreytingar verði talsverðar og reikna má með því að ýmsar tegundir fugla eigi erfitt uppdráttar á svæðinu í vor. Það vill svo vel til að Náttúrufræðistofnun kortlagði gróður á Mýrum á síðasta áratug og má glöggt sjá á gróðurkorti að landið sem hefur brunnið er eitt mesta samfellda votlendi í byggð á Íslandi. Sérfræðingar stofnunarinnar hafa þegar hafist handa við verkefnið. Ég tel rétt að farið verði vandlega yfir þessi mál í heild sinni með Brunamálastofnun og síðan metið hvort ástæða er til breytinga á gildandi lögum um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Sinubruninn á Mýrum hefur einnig beint sjónum að öðrum þætti þessa máls sem er möguleg almannahætta af sinubruna m.a. vegna vaxandi sumarhúsabyggðar í landinu. Mikilvægt er að stjórnvöld fari yfir varnir og viðbrögð vegna atburða af þessu tagi. Ég hef því óskað eftir því við brunamálastjóra að hann beiti sér fyrir því í samvinnu við hlutaðeigandi aðila að farið verði yfir skipulag varnaraðgerða vegna sinubruna.

Að undanförnu hefur verið töluverð umræða um nýtingu orkuauðlinda landsins m.a. í framhaldi af niðurstöðum verkefnisstjórnar rammaáætlunar um virkjunarkosti sem fram fór á árunum 1999 - 2003 en þar náðist breið samstaða um áherslur innan þessa málaflokks á komandi árum. Í niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar eru flokkaðar tilteknar virkjunarhugmyndir sem komu til athugunar á starfstíma verkefnisstjórnarinnar. Byggt er á gríðarmikilli vinnu sem fram fór á vegum sérstakra faghópa sem unnu að þessu verkefni á vegum verkefnisstjórnarinnar.

Ákveðið var seinni hluta árs 2004 í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2003 að skipa nýja verkefnisstjórn með fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti og Orkustofnun. Gert er ráð fyrir því að rannsóknir á nýjum virkjunarsvæðum og endurbætur fyrirliggjandi rannsókna verði unnar á vegum Orkustofnunar í samstarfi við Náttúrufræðistofnun og orkufyrirtækin, í samráði við Umhverfisstofnun og eftir atvikum umhverfisverndarsamtök eins og gert var í fyrsta áfanga. Á vegum nýrrar verkefnisstjórnar er þegar hafin vinna við mat á verndargildi háhitasvæða og landslagsvernd, sem Náttúrufræðistofnun tekur þátt í.

Af hálfu menntamálaráðherra hefur nýlega verið lagt fram frumvarp til laga um Náttúruminjasafn Íslands sem unnið var af nefnd sem forstjóri Náttúrufræðistofnunar átti sæti í.

Hlutverk safnsins er að varpa ljósi á náttúru landsins, náttúrusögu þess, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd.

Náttúrufræðistofnun er ætlað að vera vísindalegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins og annast að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess og skulu stofnanirnar hafa með sér náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra.

Ég vona að frumvarpið fái brautargengi á yfirstandandi þingi enda um mikilvægan áfanga að ræða, sem vonir standa til að verði til eflingar bæði safnastarfsemi í landinu á sviði náttúrufræða og styrki ennfremur starfsemi Náttúrufræðistofnunar.

Ágætu fundargestir.

Ég vil að lokum þakka Náttúrufræðistofnun Íslands ánægjulegt samstarf á liðnum misserum. Ég hlakka til að takast á við þau mikilvægu verkefni með ykkur sem framundan eru og óska stofnuninni og starfsmönnum velfarnaðar í ábyrgðarmiklum störfum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum