Hoppa yfir valmynd
2. október 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra  á aðalfundi Landssamtaka skógareigenda

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi Landssamtaka skógareigenda sem haldinn var í Stykkishólmi 2. október 2015.

 

Fundarstjóri, ágætu skógareigendur og gestir,

Það gleður mig að fá tækifæri til að ávarpa aðalfund landssamtaka skógareigenda. Samtökin hafa eflst mikið á síðustu árum þrátt fyrir ungan aldur. Það hefur gerst í takt við uppbyggingu skógarauðlindarinnar hér á landi.

Hlutverk samtaka eins og ykkar er víðtækt. Það snýst um sameiginlega hagsmuni skógareigenda og það snýr að fræðslu og faglegu starfi í skógrækt. Ekki síst er hið félagslega hlutverk samtakanna mikilvægt, að vera vettvangur fyrir félagsmenn til að koma saman og ræða sameiginleg málefni eins og á fundi sem þessum.

Eins og fram hefur komið þá hefur undanfarna mánuði farið fram starf í ráðuneytinu, í mínu umboði, við greiningu á verkefnum ríkisins á sviði skógræktar, með það að markmiði að skoða ávinninginn af því að sameina starf ríkisins á sviði skógræktar; að sameina landshlutaverkefni í skógrækt og Skógrækt ríkisins.

Starfshópurinn sem fenginn var til þess að skoða þetta hefur skilað mér skýrslu og er niðurstaða starfshópsins að mæla með sameiningu.

Nokkrar áherslur koma fram í skýrslu starfshópsins. Meðal þeirra er að:

  • Sameining verði eins fljótt og mögulegt er til að takmarka óvissu.
  • Nauðsynlegar lagabreytingar vegna heildarendurskoðunar skógræktarlaga og sameiningar skógræktarstarfs ríkisins í eina stofnun verði unnar hratt.
  • Ný stofnun vinni að langtíma stefnumótun með vinnslu landsáætlana og landshlutaáætlana í skógrækt.
  • Forstöðumaður nýrrar stofnunar ráðinn – sem stýri innri stefnumótun og móti skipurit þessarar nýju stofnunar.
  • Í umgjörð stofnunarinnar verði tryggt samráð innan landshluta við félagslegan vettvang skógareigenda.
  • Í hverjum landshluta verði ljóst – skýrt hvert viðskipavinir geta leitað eftir þjónustu.

Það er líka niðurstaða starfshópsins að Landssamtök skógareigenda muni hafa æ ríkara hlutverki að gegna í skógrækt á Íslandi enda hagsmunir skógareigenda sjálfra að skógarnir skapi sem mest verðmæti.

Að samtökin komi í ríkum mæli að stefnumótun fyrir skógrækt í landinu, hvetji skógareigendur innan sinna raða til að skapa verðmæti með fjölbreyttri nýtingu skóga og séu í forystu um úrvinnslu og markaðsmál á hverjum tíma.

Sumir hafa nefnt við mig hvers vegna sé ekki ráðist í stærri sameiningu stofnana og meðal annars vísað til þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi árið 2014, þar sem lögð er til sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

Vissulega hefur oft verið rætt um sameiningu landgræðslu og skógræktar en slíkt ekki gengið eftir vegna ýmissa sjónarmiða.

Ég lít á þessa tillögu sem eitt fyrsta skrefið í að styrkja stofnanakerfi ráðuneytisins, þó það sé ekki stórt skref. Þetta skref sem við hyggjumst taka nú á að vera vel framkvæmanlegt og ef við höldum vel á málum á að vera hægt að stíga það í góðri sátt ykkar og allra sem að því koma.

Það er minn vilji að sameiningin gangi í gegn á núverandi þingi þó vissulega eigi Alþingi lokaorðið í því. Ég legg áherslu á að hraða þessari vinnu til að skapa ekki langvarandi óvissu um framtíðina, bæði meðal starfsfólks og samstarfsaðila þessara stofnana.  

Þá langar mig að nefna þessu tengt að heildarendurskoðun á skógræktarlögum stendur einnig yfir núna og verður frumvarp lagt fram á vorþingi. Ég trúi því að í þessari breytingu felist veruleg tækifæri sem muni nýtast skógareigendum vel. Til verður sterk þekkingar- og stjórnsýslustofnun þangað sem má sækja góða þjónustu fyrir alla þætti skógræktar.

Skógareigendur geta - eiga að veita slíkri stofnun aðhald og láta í sér heyra varðandi það hvaða þjónustu þeir vilja fá.

Góðir gestir,

Það þarf ekki að segja ykkur hvert er nytjagildi skóga en það eru ekki allir sem átta sig á þeim margþættu notum sem við höfum af skógum.  Skógrækt er orðin umtalsverð atvinnugrein, sem vonandi gerir sig enn frekar gildandi á næstu árum og styrkir þar með búsetu í landinu.
Skógar voru lengst af ein helsta orkuauðlind okkar og liðu illilega fyrir það. Vissulega geta þeir aftur orðið verðug orkulind ásamt því að skapa hráefni til smíða, jafnvel húsagerðar – veita skjól – auðga vistkerfið með fjölbreyttum gróðri í lífverum. Þá blasa við tækifæri t.d. í aukinni ræktun jólatrjáa og nýsköpunar í úrvinnslu á afurðum skóganna. Fyrir utan allt þetta hjálpar skógrækt Íslands til við að ná settum markmiðum í loftslagsmálum.

Ríkið hefur stuðlað að fjárfestingu í skógrækt í gegnum landshlutaverkefni í skógrækt. Undanfarin ár hafa verið erfið vegna mikils samdráttar - en tillögur til fjárlaga á næsta ári fela í sér nokkra hækkun til skógræktar, sem við getum vonandi hækkað enn frekar.

Ég sé þetta þannig fyrir mér að hlutverk ríkisins sé að hvetja til uppbyggingar, þróunar og faglegs starfs og að búa svo um að rammi skógræktarstarfs sé faglegur og traustur. Það er því eðlilegt að í faglegu starfi leggjum við aukna áherslu á úrvinnsluþátt skógræktar sem byggist á sjálfbærni, skipulagi og góðri nýtingu.

Við þurfum að fylgja virðiskeðjunni til enda, frá skipulagi skógræktar, plöntuframleiðslu, gróðursetningu, umhirðu og til nýtingar. Það er sameiginlegt verkefni skógareigenda, fagaðila í skógrækt og ríkisins að tryggja að sú keðja sé heil og sterk. Hlutverk skógareigenda er að vera í forystuhlutverki um hvernig megi skapa verðmæti úr skóginum og koma með tillögur um hvernig megi styrkja veikustu hlekki keðjunnar.

Heilbrigðir skógar með fjölbreyttum vistkerfum eru besta jarðvegsverndin og á vel við að huga sérstaklega að þessu nú á árinu 2015 – hinu alþjóðlega ári moldarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Skáldkonan Hulda orti um moldina, sennilega að vorlagi:

Þú dökka raka, mjúka mold
sem mildi sólar hefur þítt.
Hve ann ég þér, hve óska ég mér,
að um þig streymi sumar nýtt.

Ég vil ítreka ánægju mína yfir að hitta ykkur hér í Stykkishólmi á aðalfundi ykkar og trúi því að það sé bjart yfir framtíð skógræktar í landinu.

Megi aðalfundurinn vera árangursríkur og ánægjulegur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum