Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fyrsta landsáætlun um meðhöndlun úrgangs er komin út

Forsíðumynd á landsáætlun um meðferð úrgangs
Landsaatlun_forsida

Í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli gefa út almenna áætlun til minnst tólf ára í senn um meðhöndlun úrgangs sem gildi fyrir landið allt. Áætlunin, sem er fyrir árin 2004 – 2016, hefur það markmið að draga úr myndun úrgangs, auka endurnotkun og endurnýtingu og minnka hlutfall úrgangs sem fer til förgunar. Jafnframt á landsáætlun að vera sveitarfélögum til leiðbeiningar varðandi svæðisbundna áætlanagerð sem sveitarstjórnir skulu síðan semja og staðfesta eigi síðar en 1. apríl 2005. Sú áætlun skal byggð á markmiðum landsáætlunarinnar. Landsáætlunin verður endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Starfandi er sérstök samráðsnefnd um framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs sem skal starfa til ársins 2010. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að fylgjast með hvernig markmiðum laganna er náð, meta þann kostnað sem hlýst af því og setja fram, eftir því sem þörf krefur, tillögur um hvernig kostnaðinum verði mætt.

Töluleg markmið eru nauðsynleg bæði í markmiðssetningu og ekki síður til að meta árangur. Í því sambandi gegnir skráning á magni og gerð úrgangs lykilhlutverki. Þrátt fyrir að skráning hafi farið batnandi síðustu ár er hún misítarleg milli sveitarfélaga og gerir það samanburð erfiðan. Í landsáætluninni eru settar fram tölur sem mynda þann grunn sem töluleg markmið landsáætlunar varðandi lífrænan úrgang eru miðuð við. Samkomulag er milli ríkis og sveitarfélaga um þennan grunn.

Árið 2002 var Úrvinnslusjóður settur á fót og er úrvinnslugjald lagt á ýmsar vörur, s.s. vörur sem verða að spilliefnum, dekk, bifreiðar, mjólkurfernur og heyrúlluplast, til að greiða fyrir endurnýtingu eða förgun þegar þær verða að úrgangi. Með þessu er verið að skapa sem hagkvæmust skilyrði til meðhöndlunar þeirra vöruflokka sem falla undir lög nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Fyrirsjáanlegt er að fleiri vörur muni bætast við í framtíðinni, en þar má nefna veiðarfæri, raftæki og umbúðir.

Til að ná markmiðum landsáætlunarinnar þarf að auka endurnýtingu lífræns úrgangs, umbúðaúrgangs og raftækjaúrgangs. Fyrirsjáanlegt er að auka þarf endurnýtingu lífræns úrgangs með jarðgerð og/eða gasgerð hér á landi til að ná markmiðunum. Aðrir úrgangsflokkar sem landsáætlunin tekur til falla undir lög um úrvinnslugjald.

PDF útgáfa af landsáætluninni.

Fréttatilkynning nr. 14/2004
Umhverfisráðuneytið



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum