Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýsamþykkt lög frá Alþingi

Alþingi
Alþingi.

Alþingi samþykkti í vikunni fimm frumvörp til laga á málefnaasviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.  Um er að ræða lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum og breytingar á lögum um loftslagsmál, efnalögum, lögum um náttúruvernd og lögum um úrvinnslugjald.

Ný heildarlög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum fjalla um sinubrennur og bálkesti og um meðferð elds utan dyra, þar á meðal ýmsar varúðarráðstafanir vegna hættu á gróðureldum. Með lögunum er heimild til sinubrennu þrengd og ákvæði um sinubrennur og meðferð elds utan dyra gerð strangari og markvissari.

Breytingar á lögum um loftslagsmál varða m.a. föngun og geymslu koldíoxíðs í jarðlögum, notkun orkunýtinna ökutækja til flutninga á vegum, gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir og lögfestingu samnings milli Íslands og ESB og aðildarríkja þess um þátttöku Íslands í sameiginlegum efndum á skuldbindingum íslands, ESB og aðildarríkja á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar. Er með þeim m.a. innleiddar Evróputilskipanir númer 2009/31/EB og  2009/ 33/EB.

Breytingar á efnalögum fela m.a. í sér færslu eftirlits með raf- og rafeindabúnaði frá Umhverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar og innleiðingar á EES-gerðum þar sem m.a. er gerð krafa um að bensínstöðvar séu útbúnar kerfi til að endurheimta bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki. 

Breytingar á lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd fela í sér að gildistöku laganna er frestað til 15. nóvember næstkomandi.

Loks samþykkti Alþingi breytingar á lögum um úrvinnslugjald, en frumvarp þess efnis var lagt fram af umhverfis- og samgöngunefnd. Breytingarnar varða samsetningu stjórnar Úrvinnslusjóðs.

Lögin verða birt í A-deild Stjórnartíðinda og á vef Alþingis innan tíðar. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum