Hoppa yfir valmynd
2. júní 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fyrstu skref til eflingar skógræktar og landgræðslu

skogur
Birkiskógur

Aukið hefur verið við framkvæmdir í skógrækt og landgræðslu á árinu með 20 milljóna króna fjárframlagi ríkisins sem skipt verður jafnt á milli greinanna tveggja. Í tengslum við fjárlagavinnu 2016 hefur Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnt í ríkisstjórn tillögur um að auka myndarlega við þessi framlög á næstu árum.

Þeir fjármunir sem renna til skógræktar nú skiptast á milli Landshlutaverkefna í skógrækt, Landgræðsluskóga, Hekluskóga og Skógræktar ríkisins. Fjármunir til landgræðslu skiptast milli Landbótasjóðs og verkefnisins Bændur græða landið sem er á vegum Landgræðslu ríkisins. Mat á árangri, þar með talið á kolefnisbindingu, er á vegum Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins.

Vegna niðurskurðar undanfarin ár til framkvæmda í skógrækt og langræðslu er mögulegt að auka verulega framkvæmdir, án þess að fjárfesta sérstaklega í inniviðum eða mannafla. Fjármununum er því hægt að ráðstafa að mestu beint til framkvæmda þ.e. framleiðslu og gróðursetningar trjáplantna og hverskonar landgræðslu.  Framkvæmdir verða að mestu á höndum bænda og annarra landeigenda, skógræktar- og landgræðslufélaga, sveitarfélaga og verktaka.

Þessi auknu framlög til skógræktar og landgræðslu miða að því að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti í gróður og jarðveg, bæta og endurheimta röskuð vistkerfi, efla dreifðar byggðir og skapa atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Áhrifin koma þegar fram með aukinni framleiðslu skógarplantna og vinnu við skógræktar- og landgræðsluverkefni og til framtíðar með stækkandi skógar- og gróðurauðlind.

Í ríkisstjórnarsáttmálanum er áhersla lögð á aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og er efling skógræktar og landgræðslu liður í því og þessir auknu fjármunir fyrstu skref í þá átt. Eru vonir bundnar við að með frekari aukningu á fjárframlögum næstu ár verði hægt að fylgja þessum áherslum eftir með myndarlegum hætti.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum