Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum

Skip við bryggju.
Skip við bryggju.

Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á framkvæmd alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, sem eru á könnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar. Ríkisendurskoðun setur einnig fram ábendingar til ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar sem miða að efldu og bættu starfi til að sinna þessum samningum og tryggja innleiðingu reglna þeirra hér á landi. 

Ráðuneytið telur ábendingarnar gagnlegar og hyggst verða við þeim í samstarfi við Umhverfisstofnun. Ráðuneytið vill efla starf á þessu sviði, sem hefur veikst á síðustu árum og leita leiða til að efla almennt þátttöku í alþjóðlegu starfi og innleiðingu reglna sem miða að því að draga úr mengun hafsins.

Í sjónarmiðum ráðuneytisins sem send voru Ríkisendurskoðun segir að alltaf sé erfitt að tryggja virka þátttöku fámenns ríkis á borð við Íslands í starfi á vegum alþjóðlegra samninga og stofnana og að dregið hafi úr slíku starfi nú á síðari árum. Á sama tíma hafi alþjóðlegt starf á sviði umhverfismála haldið áfram að vaxa. Þetta hafi m.a. komið niður á starfi innan þeirra samninga sem skoðaðir eru í úttekt Ríkisendurskoðunar. Því megi hins vegar halda fram að þátttaka í alþjóðastarfi sem varðar vernd hafsins hafi dregist meira saman en hægt sé að una við með góðu móti, þar sem málefni hafsins hafi verið forgangsmál íslenskra stjórnvalda um langa hríð.

Ráðuneytið mun setja í forgang að staðfesta og innleiða tvo viðauka MARPOL-samningsins um mengun frá skipum, sem varða annars vegar loftmengun en hins vegar losun og móttöku skólps frá skipum. Ísland hefur staðfest fjóra viðauka samningsins, en ljóst er að innleiðing hinna viðaukanna tveggja er nokkuð viðamikil, þar sem þeir eru flóknir og tæknilegir. Ísland hefur í raun tekið upp ýmis ákvæði viðaukanna tveggja, m.a. á grundvelli EES-samningsins, en engu að síður er rétt að Ísland fullgildi viðaukana svo ekki leiki vafi á að alþjóðlegar reglur og gæðastaðlar séu við lýði í íslenskri lögsögu.

Ráðuneytið bendir á í athugasemdum sínum til Ríkisendurskoðunar að skýrari forgangsröðun og aukin samvinna innan stjórnkerfisins geti bætt stöðu mála á þessu sviði að nokkru leyti, en ljóst sé þó að erfitt sé að bregðast vel við öllum ábendingum Ríkisendurskoðunar án þess að leggja til aukið fé og mannafla til málaflokksins. Auk samninganna sem Ríkisendurskoðun fjallar um í úttekt sinni hafi annað alþjóðastarf tengt vernd og sjálfbærri nýtingu hafsins aukist verulega, m.a. á vegum Sameinuðu þjóðanna og Norðurskautsráðsins. Leggja þurfi aukna áherslu á málefni hafsins almennt í starfi ráðuneytisins og jafnvel stjórnarráðsins í ljósi hinna miklu hagsmuna sem Ísland hefur á þessu sviði og að ljóst sé að samdráttur í alþjóðastarfi ráðuneyta og stofnana á undangengnum árum hafi gert það erfiðara en áður að gæta þessara hagsmuna og halda uppi ímynd Íslands sem fyrirmyndar og forysturíkis varðandi verndun hafsins gegn mengun og öðrum ógnum.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar með athugasemdum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum