Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stefnt að samþykkt skuldbindinga fyrir 2. tímabil Kýótó bókunarinnar á loftslagsfundi

Frá setningu ráðstefnunnar í gær.
Frá setningu ráðstefnunnar.

Átjánda aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hófst í Doha í Katar í gær, 26. nóvember. Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra mun sækja ráðherrafund þingsins 4.-7. desember nk. Helsta viðfangsefni fundarins er að ganga formlega frá breytingum á Kýótó-bókuninni þannig að ríki taki á sig nýjar skuldbindingar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda eftir að fyrsta skuldbindingartímabil, 2008-2012, rennur út í lok þessa árs.

Ísland er meðal tæplega 40 þróaðra ríkja sem bera skuldbindingar um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt ákvæðum Kýótó, en þróunarríki eru undanþegin slíkum tölulegum skuldbindingum. Flest bendir til að Ísland verði innan settra marka á 1. tímabili Kyotobókunarinnar, sem nú er að ljúka.

Kýótó-bókunin heimilar ríkjum að taka á sig sameiginlegar skuldbindingar og hafa íslensk stjórnvöld stefnt að því að taka á sig sameiginlega skuldbindingu með ríkjum Evrópusambandsins og Króatíu á 2. tímabili. Ástæða þessa er sú að Ísland er nú að taka upp evrópskar reglur um losun gróðurhúsalofttegunda skv. EES-samningnum og það yrði flókið fyrir íslensk stjórnvöld og fyrirtæki að búa við tvöfalt kerfi skuldbindinga í loftslagsmálum, skv. EES-samningnum annars vegar og Kýótó-bókuninni hins vegar. Ísland og ESB sammæltust um þessa nálgun fyrir Kaupmannahafnarfundinn 2009 og á síðasta aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins, í Durban í S-Afríku 2011, var samþykkt að Ísland, Króatía og ríki ESB mættu setja sér sameiginlegt markmið. Með þessu skapast meiri vissa um skuldbindingar Íslands á komandi árum og íslensk fyrirtæki munu búa við sömu reglur og gilda annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Eftir er að semja um ýmsa þætti varðandi 2. skuldbindingartímabilið, s.s. um tímalengd þess og mögulegan flutning losunarheimilda milli tímabila. Þá hefur Kýótó-bókunin veikst töluvert, þar sem þrjú stór ríki – Japan, Rússland og Kanada – höfðu fyrir nokkru ákveðið að taka ekki á sig nýjar skuldbindingar á 2. tímabili. Nýlega bættist Nýja-Sjáland í þennan hóp og eru það því einungis Evrópuríki og Ástralía sem hafa ljáð máls á að taka á sig skuldbindingar á 2. tímabili. Á þessu ári hófust hins vegar nýjar viðræður sem eiga að leiða til nýs hnattræns samkomulags um hertar aðgerðir allra ríkja gegn losun og loftslagsbreytingum. Ljúka á gerð þessa nýja samkomulags 2015 og það á að taka gildi 2020.

Ísland hefur haldið á lofti sjónarmiðum kynjajafnréttis og virkrar þátttöku kvenna í viðræðum innan loftslagssamningsins og fengið texta þess efnis samþykkta. Ísland hefur einnig fengið tillögur samþykktar varðandi aðgerðir sem tengjast bindingu kolefnis úr andrúmslofti, landgræðslu og vernd og endurheimt votlendis. Ísland hefur á undanförnum misserum aukið framlög til loftslagstengdra verkefna í þróunaraðstoð og stefnt er að áframhaldandi aukningu á því sviði. Má þar nefna verkefni um kyn og loftslag í Úganda, sem kynnt verður á fundinum í Doha, og margvísleg verkefni á sviði jarðhitanýtingar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum