Hoppa yfir valmynd
2. mars 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs til umsagnar

Úrgang má víða nota sem hráefni

Umhverfisráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. Tillögurnar fela m.a. í sér að umhverfisráðherra gefi út sérstaka landsáætlun um minnkun úrgangs til tólf ára í senn, að auðveldara verði fyrir almenning að skila frá sér flokkuðum úrgangi og að óheimilt verði að taka gjald fyrir móttöku úrgangs á söfnunarstöð

Samkvæmt frumvarpsdrögunum er markmið laganna að vernda umhverfið og heilbrigði manna með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs eða draga úr neikvæðum áhrifum hans.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra gefi út áætlun fyrir landið allt til tólf ára í senn um hvernig draga megi úr úrgangi sem unnin verði með sama hætti og landsáætlun um úrgang.

Þá er lagt til að sveitarstjórn skuli sjá til þess að úrgangi sé safnað í sveitarfélaginu og honum ráðstafað með réttum hætti. Sömuleiðis að sveitarstjórn tryggi að unnt verði að losa sig við flokkaðan úrgang við íbúðarhús, lögbýli og atvinnuhúsnæði og við afleggjara að sumarhúsi. Er talið að sú lausn sé best til þess fallin að auka flokkun úrgangs. Þá er lagt til að komið verði á sérstakri söfnun á a.m.k. pappír, málmum, plasti, gleri og lífrænum úrgangi en áætlað er að þetta ákvæði taki gildi 1. janúar 2015.

Einnig er lagt til að notast skuli við ákveðna forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Almennt skal leitast við að velja þá kosti sem skila bestu heildarniðurstöðunni fyrir umhverfið.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að starfsemi sem lýtur að flutningi úrgangs, söfnunarstöðvum og endurnýtingu úrgangs verði ekki lengur starfsleyfisskyld. Þess í stað verði hún tilkynningarskyld til Umhverfisstofnunar og háð eftirliti frá heilbrigðisnefndum.

Þá eru lagðar til breytingar á gjaldtöku fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangs með þeim hætti að sveitarstjórnum verði skylt að rukka raunkostnað við söfnun og meðhöndlun. Jafnframt er lagt til að óheimilt verði að taka gjald fyrir móttöku úrgangs á söfnunarstöð. Tilgangur með þessu ákvæði er að hvetja til þess að úrgangi sé skilað á söfnunarstöð í stað þess að honum sé ráðstafað með ólöglegum hætti.

Breytingunum er ætlað að innleiða úrgangstilskipun Evrópusambandsins nr. 2008/98/EB.

Umsögnum skal skilað í síðasta lagi 16. mars næstkomandi á netfangið [email protected] eða í bréfapósti, merkt Umhverfisráðuneytið, Skuggasund 1, 150 Reykjavík.

Drög að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum