Hoppa yfir valmynd
9. desember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýtt norrænt loftslagsverkefni kynnt í Durban

Reykháfar
Reykháfar

Nýtt átak Norðurlandanna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, Nordic Partnership Initiative (NPI), var kynnt á loftslagsráðstefnunni í Durban í Suður Afríku í gær. Átakið sem er styrkt af norrænu ráðherranefndinni, miðar að því að aðstoða Perú og Víetnam við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá mengandi starfsemi á borð við sorpvinnslu og sementsframleiðslu.

Átakið er framhald þeirra skuldbindinga sem Norðurlöndin komu sér saman um á COP16 loftslagsráðstefnunni í Cancún í Mexíkó í fyrra. Það gengur út á að sýna fram á hvernig hægt er að nýta alþjóðlegt fjármagn til loftslagsmála í verkefni tengd heilum atvinnugreinum í þróunarlöndum með það að markmiði að draga úr losun. 

Verkefnin munu beinast að sorpvinnslu og sementframleiðslu sem hvorutveggja losa mikið af gróðurhúsalofttegundum. Í NPI-verkefninu í Perú verður áhersla lögð á að finna leiðir til að draga úr losun koldíoxíðs frá sorpvinnslu, en losun frá henni er meiri á alþjóðavísu en frá öllum samgöngum í veröldinni. Alls verður varið 2,3 milljónum evra, eða um 367 milljónum króna til verkefnisins sem er fjármagnað af Norræna umhverfisfjármögnunarfélaginu (NEFCO) og ríkisstjórnum Norðurlandanna.

Í NPI-verkefninu í Víetnam verður áhersla lögð á sementsgeirann sem á alþjóðavísu ber ábyrgð á um 5% af heildarlosun koldíoxíðs í heiminum. Heildarkostnaður verkefnisins er um 1,6 milljónir evra, eða um 255 milljónir króna. Fjármögnun er á vegum Norræna þróunarsjóðsins (NDF) auk þess sem víetnamska ríkisstjórnin leggur verkefninu fé. Þá er Þróunarbanki Asíu (ADB) samstarfsaðili verkefnisins.

Í samþykktum COP16 loftslagsráðstefnunnar í Cancún frá í fyrra er tiltekið að stefnt skuli að því að halda hlýnun jarðar innan tveggja gráða. Kemur fram í nýrri rannsókn Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) að til að þetta gangi eftir þurfi að efla mótvægisaðgerðir verulega, hvorutveggja í þróunarlöndum og þróuðum löndum.

Í Cancún urðu þróuðu löndin einnig sammála um að veita þróunarlöndunum aðstoð við að byggja upp þekkingu og hæfni heimavið og skipta út gömlum framleiðsluaðferðum fyrir nýrri og loftslagsvænni tækni um leið og löndin yrðu studd fjárhagslega. Í samræmi við þetta miðar NPI-verkefnið að því að nýta alþjóðlegt fjármagn til að auka getu landanna tveggja til að meta, skipuleggja og hrinda í framkvæmd mótvægisaðgerðum sem sniðnar eru að aðstæðum í hvoru landi fyrir sig.

NPI-átakið var kynnt á COP17 loftslagsráðstefnunni í Durban í Suður-Afríku í gær en verkefnin tvö koma til framkvæmda á næsta ári. Þátttakendur í átakinu eru Norðurlöndin (Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð) í gegn um norrænu ráðherranefndina í samstarfi við Perú og Víetnam.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum