Hoppa yfir valmynd
1. desember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grænfáninn eflist á fullveldisdegi

Frá undirritun Grænfánasamningsins

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, undirrituðu í dag þriggja ára styrktarsamning vegna Skóla á grænni grein, eða Grænfánaverkefnisins svokallaða.

Var samningurinn undirritaður í Kvennaskólanum í Reykjavík en nemendur þar og kennarar fögnuðu því jafnframt að vera 200. skólinn sem hefur þátttöku í verkefninu. 

Auk ávarpa ráðherra og skólastjóra fluttu nemendur skólans tónlistaratriði, auk þess sem þeir æfðu nýstárlegt „Grænfánaklapp“ undir stjórn umhverfisráðherra.

undefined

Samningsaðilar hafa stefnt að undirritun slíks samnings um nokkurt skeið en þess má geta að langtímasamningur við Grænfánaverkefnið er meðal tillagna í þingsályktunartillögu um eflingu græns hagkerfis á Íslandi sem nú liggur fyrir Alþingi.

Skólarnir hampa Grænfánunum.Fyrr um morguninn afhenti umhverfisráðherra tveimur skólum á Álftanesi Grænfána, annars vegar Náttúruleikskólanum Krakkakoti sem fékk Grænfánann í þriðja sinn og hins vegar Álftanesskóla sem fékk hann afhentan í fjórða sinn. Var sérstök hátíðardagskrá af því tilefni og til að halda upp á fullveldisdag Íslendinga þar sem 550 krakkar í skólunum tveimur fögnuðu áfanganum. Fól hún m.a. í sér samsöng og tískusýningu þar sem sýndur var glæsifatnaður úr endurunnum efnum. Hápunkturinn var svo afhending Grænfánanna.

Nemendur Álftanesskóla og Krakkakots.Skólar á grænni grein (Eco-Schools) er alþjóðlegt verkefni sem Landvernd hefur rekið hér á landi í 10 ár. Þátttökuskólar miða að því að geta flaggað alþjóðlegu viðurkenningunni Grænfánanum sem veitt er fyrir umhverfisstarf og stefnu skólans í umhverfismálum. Þurfa skólarnir að hafa stigið sjö skilgreind skref í umhverfismálum til að geta sótt um Grænfánann sem er alla jafna veittur til tveggja ára í senn. Sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum