Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norrænu umhverfisráðherrarnir efla samstarfið á sviði loftslagsmála

nordiskeflagg
Þjóðfánar Norðurlanda.

Uppbygging græna hagkerfisins skapar skilyrði fyrir hreinna umhverfi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þannig stuðlum við að jafnvægi vistkerfa og sterkari efnahag samfélagsins. Þetta voru skilaboð norrænu umhverfisráðherranna að loknum fundi þeirra í Kaupmannahöfn í dag.

Á fundi sínum ákváðu umhverfisráðherrarnir að skerpa á umræðunni um græna hagkerfið í viðræðum við lönd þar sem hagvöxtur er ör sem og þróunarríki. Þetta er ekki síst þýðingarmikið nú í aðdraganda alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Rio+20 sem haldin verður í júní á næsta ári, þegar 20 ár verða liðin frá ráðstefnunni í Rio de Janeiro. Mikilvægt skref á þeirri leið er fundur sem halda á í Stokkhólmi í apríl næstkomandi, 40 árum eftir Stokkhólmsráðstefnuna um umhverfismál sem haldin var 1972.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra Íslands, undirstrikaði að umskiptin yfir í grænt hagkerfi þýddu ekki að draga myndi úr lífsgæðum fólks. Þvert á móti gæti græna hagkerfið tryggt betri lífsgæði, bæði í nærumhverfi og alþjóðlega til lengri og skemmri tíma.

Þá ákváðu Norðurlöndin í samvinnu við Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) og Norræna þróunarsjóðinn (NDF) að leggja áherslu á að skapa grundvöll fyrir nýja og sveigjanlega fjármögnunarmöguleika við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þróunarríkjum. Standa vonir til að tilraunaverkefni á þessu sviði í Víetnam og Perú leiði til aukins samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Verður verkefnið, sem er hið fyrsta sinnar tegundar, kynnt á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Suður-Afríku í desember næstkomandi.

Á fundinum var tillaga Noregs um að Norðurlöndin ynnu saman að orkumálum, verndun vistkerfa auk sjálfbærnimarkmiðanna fyrir Rio+20, samþykkt.

Losun skammlífra loftslagsefna, s.s. sótefna var einnig rædd en hún hefur sérlega mikil áhrif á bráðnun íss á Norðurskautinu. Ákváðu ráðherrarnir að standa fyrir vinnufundum þar sem komið yrði fram með ákveðnar tillögur varðandi þessi efni í þeim tilgangi að hægja á bráðnuninni. Munu Norðurlöndin þannig vísa veginn í þessum efnum.

Að loknum fundi umhverfsiráðherranna funduðu þeir með umhverfisnefnd Norðurlandaráðs og ræddu norrænt skilakerfi umbúða, loftslagsmál, loftgæðaskýrslu frá Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna og ástand Eystrasaltsins.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum