Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dagur umhverfisins - málþing og viðurkenningar

Jón Þór Frantzson, forstjóri Íslenska Gámafélagsins og Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra með Kuðunginn.
Á Degi umhverfisins

Íslenska Gámafélagið hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, sem var afhentur á málþingi um græn störf á Degi umhverfisins. Við sama tækifæri voru nemendur úr Snælandsskóla og Grunnskóla Siglufjarðar útnefndir varðliðar umhverfisins.

Íslenska Gámafélagið hlaut Kuðunginn

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra afhenti Jóni Þóri Frantzsyni, forstjóra Íslenska Gámafélagsins Kuðunginn fyrir framlag fyrirtækisins til umhverfismála á liðnu ári.

Í máli Hörpu Björnsdóttur, formanns úthlutunarnefndar Kuðungsins, kom fram að Íslenska Gámafélagið hefði hannað og þróað sorpflokkunarkerfi til lágmörkunar úrgangs og urðunar sorps og haft frumkvæði að því að innleiða þetta flokkunarkerfi í samstarfi við bæjar- og sveitarfélög. Fyrirtækið hefur með þessu unnið metnaðarfullt frumkvöðlastarf í innleiðingu sorpflokkunarkerfis frá heimilum, með það að markmiði að draga úr urðun heimlissorps allt að 70-80%.

Á árinu 2008 tóku Stykkishólmsbær og Flóahreppur þátt í slíku samstarfsverkefni sem skilaði stórkostlegum árangri strax á fyrstu mánuðum. Innleiðing flokkunarkerfisins var til fyrirmyndar, fyrirtækið kostaði og útbjó kynningarefni, íbúafundir voru haldnir, starfsmenn fyrirtækisins heimsóttu hvert heimili til að kynna verkefnið og veittu ráðgjöf. Árangurinn af verkefninu í Stykkishólmsbæ og Flóahreppi hefur orðið fleiri sveitarfélögum hvatning til að hefja innleiðingu sorpflokkunarkerfis Íslenska Gámafélagsins og þannig stuðlað að vakningu meðal sveitarstjórnarmanna í umhverfismálum.

Í starfi fyrirtækisins og markmiðum er að auki lögð áhersla á að setja sér mælanleg markmið í umhverfismálum og taka tillit til umhverfisins í allri starfsemi fyrirtækisins með virku og vottanlegu gæðakerfi, fagmennsku starfsfólks, nýtingu auðlinda með eins litlum umhverfisáhrifum og kostur er og vinna markvisst að notkun vistvænnar orku. M.a. hefur fyrirtækið sérhæft sig í að breyta bensín- og díselbílum í metangasbifreiðar sem ganga fyrir gasi framleiddu úr sorpi og eitt af umhverfismarkmiðum félagsins er að hefja framleiðslu metangass úr úrgangi og knýja þannig bílaflota sinn á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt. Fyrirtækið á í dag 23 metangasbíla og hefur breytt 3 bifreiðum yfir í metangasbíla.

Íslenska Gámafélagið hefur nú rétt til að nota merki Kuðungsins í eitt ár. Að auki fékk fyrirtækið Kuðung til eignar sem Halla Ásgeirsdóttir leirlistakona gerði.

Sérstök úthlutunarnefnd fjallar um tilnefningarnar og í valnefndinni sátu að þessu sinni Guðmundur Gunnarsson fyrir hönd Alþýðusambands Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins og Harpa Björnsdóttir skipuð af umhverfisráðherra.

Varðliðar umhverfisins

Nemendur í Grunnskóla Siglufjarðar - varðliðar umhverfisins 2009Við sama tilefni útnefndi umhverfisráðherra nemendur úr Grunnskóla Siglufjarðar og Snælandsskóla varðliða umhverfisins.

Annars vegar voru það krakkar úr árgangi 1997 í Grunnskóla Siglufjarðar sem voru útnefndir varðliðar umhverfisins fyrir verkefnið Jaðrakan. Nemendurnir fylgdust m.a. með ferðum merktra jaðrakana frá Bretlandi til Íslands og tóku þátt í merkingum fugla. Einnig létu nemendurnir sig búsvæði fuglanna varða, s.s. með ályktun um verndun þess. Verkefnið er samstarfsverkefni Grunnskóla Siglufjarðar og grunnskólabarna í bænum Cobh í Cork á Írlandi og nemendurnir hafa því skrifast á við félaga sína á Írlandi, fengið gögn þaðan og miðlað upplýsingum um stöðu verkefnisins í þeirra eigin skóla.

Nemendur í Hjólaríi Snælandsskóla - varðliðar umhverfisins 2009.Nemendur í Hjólaríi Snælandsskóla voru einnig útnefndir varðliðar umhverfisins. Hjólaríið var sett á laggirnar í reiðhjólaverkstæði haustið 2006. Nemendurnir læra þar viðgerðir á reiðhjólum, þar eru ónýt hjól nýtt sem varahlutir í önnur og afrakstur þess er fjöldi fullbúinna hjóla sem skólinn hefur fært m.a. Rauða krossinum að gjöf. Skólinn hefur í verkefninu orðið sér úti um reiðhjól fyrir bekkjardeildir til að nýta í styttri vettvangs- og skemmtiferðir, nemendur sem ekki eiga reiðhjól geta eignast ódýr hjól auk þess sem kennurum stendur til boða að kaupa hjól. Markmið verkefnisins er m.a. að endurnýta það sem mögulegt er og að nemendur læri að meta reiðhjól sem farartæki.

Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni sem umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur efndu til í fyrsta skipti í ár. Tilgangur keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.

Málþing um græn störf

Umhverfisráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Félag umhverfisfræðinga efndu til málþings í Iðnó á Degi umhverfisins um græn störf og vistvænar áherslur í atvinnuuppbyggingu. Um 80 gestir hlýddu á kynningu á sjö fyrirtækjum sem vinna að ferðaþjónustu, orkusparnaði og betri nýtingu afurða og auðlinda. Fyrirtækin eru Marorka, Gavia Travel, Saga Medica, Carbon Recycling International, HBT, Farmers Market og Prókatín. Þá var efnt til pallborðsumræðna þar sem þátt tóku Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Baldur M. Helgason, sjóðstjóri hjá Auði Capital, Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Samtökum Iðnaðarins og Anna G. Sverrisdóttir, formaður umhverfisnefndar Samtaka ferðaþjónustunnar.

Á málþinginu Græn störf í Iðnó á Degi umhverfisins 25. apríl 2009.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum